Viðræðurnar að þroskast

Árni Stefán Jónsson, formaður SFR.
Árni Stefán Jónsson, formaður SFR. Ljósmynd/SFR

„Málið hefur aðeins verið að þroskast ef svo má að orði komast. Við höfum verið að skoða ákveðna hugmyndafræði í kringum þetta,“ segir Árni Stefán Jónsson, formaður SFR, í samtali við mbl.is rétt áður en fundur hófst í kjaradeilu félagsins, Sjúkraliðafélags Íslands og Landssambands lögreglumanna við ríkið í húsakynnum ríkissáttasemjara klukkan ellefu.

„Menn fóru í það í gær að senda einhverja pappíra á milli. Við vorum að skoða hugmynd frá samninganefnd ríkisins. Við erum búin að svara henni og þeir eru að skoða það. Væntanlega verður það það fyrsta sem við ræðum á fundinum. Þá eitthvað svar frá þeim.“ Spurður hvort hugmyndir ríkisins séu athygli verðar segir Árni svo vera. 

„Þess vegna fórum við í það að skoða þetta og síðan er bara spurning hvort þeim líki við okkar svar og svo framvegis og hvernig það þróast,“ segir hann. „Breytingin sem hefur orðið er sú að í stað þess að menn voru ekkert að tala saman þá eru menn byrjaðir á því. Það eru virkilega allir aðilar að reyna að þoka þessu eitthvað áfram og reyna að finna lausn.“

Hins vegar sé málið það flókið enn að viðræðurnar eigi eftir að taka einhvern tíma. „Við erum bara að reyna að þroska þetta. En miðað við stöðuna í dag er algerlega á hreinu að það verða verkföll á mánudag og þriðjudag. Ég hef ekki nokkra von um að það verði öðruvísi.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert