Kuldaveður í kortunum

Veður fer kólnandi um land allt.
Veður fer kólnandi um land allt. mbl.is/Styrmir Kári

Á meðan íbúar höfuðborgarinnar máttu þola 4 til 6 gráður í dag hafa Austfirðingar búið við öllu meiri hlýindi. Eins og mbl.is greindi frá á föstudaginn fór hitinn hæst í 18,4 gráður í Neskaupstað og í dag væsti ekki um Seyðfirðinga í 15,1 gráðu.

„Þetta er nú býsna hefðbundið fyrir þessa vindátt á þessum tíma, þetta er ekkert óvenjulegt,“ segir Óli Þór Árnason og kveður Austfirðinga njóta góðs af suðsuðvestan-strekkingi.

Það er þó óhætt fyrir Austfirðinga sem og landsmenn alla að fara að búa sig undir veturinn enda segir Óli að smám saman fari að kólna.

Næturfrost undir helgi

„Það byrjaði þegar skilin fóru hérna yfir í morgun. Eins og fólk hefur kannski fundið var ekki 7 til 9 stiga hiti hér í Reykjavík heldur frekar 4 til 6 gráður og það eru þannig tölur sem við megum eiga von á fyrir suðvesturhornið næstu þrjá fjóra dagana. Svo bara lækkar þetta hægt og rólega.“

Óli segir að það gæti gert næturfrost undir helgina og að allt útlit sé fyrir að það verði í það minnsta frost á sunnudaginn ef fram fer sem horfir. Hann tekur fram að amerískum og evrópskum spám komi ekki saman um hvernig næsta helgi verður en að þær séu þó sammála um lægðina sem fara mun hjá á þriðjudag og miðvikudag og það að önnur láti sjá sig á fimmtudag og aðfaranótt föstudags.

„Og þegar hún fer aftur til austurs dregur hún mun kaldara loft inn yfir landið og það gæti farið að snjóa eitthvað fyrir norðan. Þó að það verði nú líklega frostlaust á láglendinu má búast við að það snjói víða eða allavega verði slydda. Hérna syðra verður ekki mikil úrkoma en eins og ég segi þá er útlit fyrir að það verði ansi kalt loft yfir landinu aðfaranótt sunnudags.“

Hvað Austurlandið varðar segir Óli að svo lengi sem suðsuðvestan-áttirnar leiki um landið muni Austfirðingar búa við fínt veður.

„Þeir verða með ágætis veður á morgun. Það rignir um allt land seinni partinn á þriðjudag þó það verði sýnu verst sunnan- og vestantil á landinu og þá fá þeir alveg sinn skerf af því aðfaranótt miðvikudags. Þá erum við farin að fara meira út í austan- og norðaustanáttir og þá fer nú að kólna hjá þeim líka.“

Óli vekur athygli á því að næsta helgi er fyrsta rjúpnahelgi ársins. Segir hann að þar sem helgin virðist ætla að vera umhleypingasöm með köldu veðri eigi veiðimenn að hafa það í huga að fylgjast vel með enda eigi spárnar líklega enn eftir að taka breytingum fyrir næstu helgi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert