Vinnuvikan verði 35 stundir

Svíar hafa verið að þoka sér í átt að 6 …
Svíar hafa verið að þoka sér í átt að 6 stunda vinnudegi, en hér er lagt til að vinnudagurinn verði 7 stundir. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Fjórir þingmenn hafa lagt fram frumvarp um breytingu á lögum um 40 stunda vinnuviku, en í því er lagt til að vinnuvikan verði stytt í 35 stundir og vinnudagurinn úr 8 stundum í 7 stundir. Heiti laganna verði Lög um 35 stunda vinnuviku.

Í greinargerð með frumvarpinu segir að það feli í sér þá breytingu að í hverri viku skuli ekki vera fleiri en 35 dagvinnutímar sem vinna ber á dagvinnutímabili á virkum dögum og að jafnaði skuli unnar 7 klukkustundir í dagvinnu á degi hverjum frá mánudegi til föstudags.

Þá segir í greinargerðinni að samkvæmt skýrslum OECD um jafnvægi milli vinnu og frítíma komi Ísland illa út og sé í 27. sæti af 36 þjóðum. Tillagan myndi minnka heildarvinnutíma um u.þ.b. 230 klukkustundir á ári, sem myndi færa Ísland í 10. sætið, næst á eftir Svíþjóð sem er þó að færa sig í átt að sex stunda vinnudegi.

„Markmið breytingarinnar er ekki að kjör skerðist við styttingu vinnudags og ekki er gert ráð fyrir því að vinnudagur styttist sjálfkrafa við þessa breytingu. Lög um 40 stunda vinnuviku voru sett árið 1971 en það var fyrst árið 2012 sem meðalvinnuvikan varð 40 stundir. Markmið lagabreytingar þessarar er að auka markvisst framleiðni og lífsgæði launþega á Ísland með þessum hætti, en líkt og skýrslur OECD hafa sýnt fram á haldast ekki endilega í hendur lengri vinnutími og meiri framleiðni,“ segir í greinargerðinni.

Flutningsmenn frumvarpsins eru Björn Leví Gunnarsson, Ásta Guðrún Helgadóttir, Helgi Hrafn Gunnarsson og Sigríður Ingibjörg Ingadóttir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert