Sigmundur og Cameron funda á Alþingi

David Cameron, forsætisráðherra Bretlands, fékk stutta kynningu um Alþingishúsið áður en hann hitti Sigmund Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra, núna rétt í þessu. Cameron er hér á landi vegna ráðstefn­unn­ar Nort­hern Fut­ure For­um í boði for­sæt­is­ráðherra.

Það var Einar Guðfinnsson, forseti þingsins, sem sýndi Cameron um húsið, en hann fræddi hann meðal annars um það fyrirkomulag að þingmenn dragi sér sæti. Þótti Cameron það merkilegt, enda er slíkt fyrirkomulag nokkuð einstakt í heiminum.

Frétt mbl.is: Cameron mættur til Íslands

Eftir kynningarferð um húsið fóru þeir Cameron og Sigmundur Davíð í hliðarsal hússins, þar sem efri deild þingsins var áður með aðstöðu. Þar munu þeir Sigmundur ræða saman.

Við komuna að Alþingishúsinu var Cameron spurður af blaðamanni út í áframhaldandi veru í Evrópusambandinu, en samkvæmt blaðamanni mbl.is á staðnum brosti Cameron að spurningunni og svaraði henni ekki.

Eins og greint hefur verið frá er talið líklegt að Cameron hafi rætt við erlendan blaðamann um að hann voni að Bretar verði áfram innan Evrópusambandsins og að fyrirkomulag eins og Norðmenn hafi við sambandið, gegnum EES samninginn, henti ekki breskum hagsmunum.

Frétt mbl.is: Gríðarleg gæsla í kringum Cameron

Cameron og Sigmundur í Alþingishúsinu.
Cameron og Sigmundur í Alþingishúsinu.
Við komuna í Alþingishúsið.
Við komuna í Alþingishúsið. Mynd/Árni Sæberg
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert