Fjölga ungu fólki á listum

Frá flokksstjórnarfundi Samfylkingarinnar.
Frá flokksstjórnarfundi Samfylkingarinnar. Ljósmynd/Samfylkingin

Tillaga formanns Samfylkingarinnar um að fjölga ungu fólki í efstu sætum framboðslista til næstu Alþingiskosninga var samþykkt einróma á fundi flokksstjórnar í gær.

Í fréttatilkynningu flokksins segir að þar með stígi Samfylkingin skrefinu lengra en aðrir flokkar til að tryggja endurnýjun og nýliðun fulltrúa í komandi kosningum.

„Miklar umræður sköpuðust á flokksstjórnarfundinum um hvernig fjölga mætti fólki á aldrinum 35 ára og yngri í forystusveit flokksins í Alþingiskosningunum vorið 2017, en tilefnið var tillaga Natans Þórunnar-Kolbeinssonar og fleiri um aldurskvóta í þremur efstu sætum framboðslista Samfylkingarinnar,“ segir í tilkynningunni.

„Í umræðum kom fram ríkur stuðningur við markmið tillögunnar, þótt deildar meiningar hafi verið um aðferðina, og var samþykkt að Samfylkingin myndi grípa til sérstakra aðgerða til þess að styðja við framgang ungs fólks og nýrra frambjóðenda fyrir næstu kosningar.“

Tillagan í heild:

Flokksstjórn Samfylkingarinnar samþykkir að nýliðun í efstu sætum framboðslista skipti miklu máli fyrir Samfylkinguna og minnir í því sambandi sérstaklega á grein 5.6. í gildandi reglum um val á framboðslista. Samkvæmt þeirri grein er gert ráð fyrir að fimmta hvert sæti sé skipað fólki undir 35 ára aldri. Flokksstjórn vísar tillögunni sem liggur fyrir fundinum til umfjöllunar í kjördæmisráðum, þannig að þessi sjónarmið komi til umfjöllunar áður en ákvörðun um leikreglur verði tekin.

Flokksstjórn beinir því til kjördæmisráða að hafa í huga sjónarmið um hlutdeild ungs fólks í efstu sætum ef stillt er upp á framboðslista. Ef flokksvali er beitt er því beint til kjördæmisráða að valið styðji við nýliðun og að sérstök kynning fari fram á vegum kjördæmisráða á nýjum frambjóðendum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert