Hafa ekki náð sambandi við franska ferðamenn

Hálendið er fallegt, en það er ekki fyrir hvern sem …
Hálendið er fallegt, en það er ekki fyrir hvern sem er að fara þar yfir - sérstaklega ekki á þessum árstíma. mbl.is/RAX

Það eru fáir sem fara gangandi yfir hálendið á þessum tíma árs, en sumum - þá sérstaklega erlendum ferðamönnum - þykir þetta spennandi áskorun. Von er á vonskuveðri um landið á morgun og að sögn Slysavarnafélagsins Landsbjargar er vitað af a.m.k. þremur hópum á hálendingu. Náðst hefur í alla nema einn.

Jónas Guðmundsson, hjá Slysavarnafélaginu Landsbjörg, segir í samtali við mbl.is að enn hafi ekki náðst í tvo franska ferðamenn sem hófu göngu þvert yfir landið í lok síðasta mánaðar. Þeir skildu ekki eftir ferðaáætlun og telja sig alveg sjálfbæra.

„Við vitum ekki nákvæmlega hvar þeir eru, en teljum að þeir séu einhversstaðar í kringum Nýjadal - kannski komnir fram hjá Nýjadal fyrir einum eða tveimur dögum,“ segir Jónas, en bætir við að upplýsingarnar séu ekki nákvæmar, en síðast fréttist af þeim fyrir um það bil viku. 

Þá var greint var frá göngu fjögurra ungra Breta þvert yfir Ísland í frétt á mbl.is í fyrrakvöld. Hefur leiðangurinn fengið titilinn „The Coldest Crossing“. Jónas segir í samtali við mbl.is, að Landsbjörg hafi náð sambandi við þá og að þeir séu í ágætum málum. Þeir séu vel búnir, t.d. með neyðarsendi frá Landsbjörg, SPOT-tæki og einnig með gervihnattasíma. Jónas segir að Bretarnir, sem gista í tjöldum, hafi verið voru í vondu veðri í gær en þeir hafi staðið það af sér.  „Við erum búnir að láta þá vita af veðrinu,“ segir Jónas. 

Þriðji hópurinn ákvað svo að snúa aftur til byggða að sögn Jónasar. 

Spurður um það hversu margir eru í slíkum erindagjörðum á hálendi Íslands á þessum árstíma, segir Jónas að það séu afar fáir. Íslendingar fari frekar í apríl og maí þegar það er búið að birta til og veðrið sé betra. 

Hvað varðar erlenda ferðamenn sem leggja af stað í svona ferðalög, segir Jónas að sumir séu að þessu því þeir vilji fá áskorunina og það sé betra að hafa slæmt veður. Svo séu aðrir sem einfaldlega átti sig ekki á því að þetta sé ekki góður árstími til að fara í svona leiðangra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert