99 hópnauðganir á síðustu sex árum

Frá mótmælum á meðferð kynferðisbrota við lögreglustöðina á Hlemmi í …
Frá mótmælum á meðferð kynferðisbrota við lögreglustöðina á Hlemmi í nóvember. Árni Sæberg

Á árunum 2010 til 2014 leitaði 91 þolandi til Stígamóta vegna hópnauðgana. Tölur Stígamóta fyrir árið 2015 liggja ekki fyrir en það sem af er ári hafa lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu borist átta tilkynningar um nauðgunarmál þar sem tveir eða fleiri eru grunaðir.

Það þýðir að minnst 99 hópnauðganir hafa verið tilkynntar á síðustu sex árum. Ef haft er í huga að árið 2014 neituðu 79,7 prósent þeirra þolenda kynferðisbrota sem leituðu til Stígamóta að kæra gerendur er óhætt að fullyrða að tilkynntar hópnauðganir síðustu sex árin eru yfir 100 talsins og hugsanlega vel það.

Hafa ber í huga að ofangreindar og efitrfarandi tölur frá lögreglu eiga aðeins við um kynferðisbrot af höfuðborgarsvæðinu en til Stígamóta leitar fólk víða af landinu. Þá er einnig rétt að minna á að mörg brot eru aldrei tilkynnt.

Átta mál á árinu

Eins og áður segir hafa átta tilkynningar borist til lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu það sem af er ári um nauðgunarmál þar sem tveir eða fleiri eru grunaðir. Í svari lögreglu við fyrirspurn mbl.is segir að flest málin séu til rannsóknar hjá lögreglu og að eitt sé á borði Ríkissaksóknara.

„Í tveimur málanna barst tilkynning frá Neyðarmóttöku en þolandi vill ekki leggja fram kæru. Í þremur málanna eru málsatvik mjög óljós og liggur framhald þeirra ekki fyrir. Hin málin eru í rannsókn.“

Málafjöldinn er tvöfaldur á við árið 2014 þar sem fjögur mál voru tekin til rannsóknar vegna gruns um hópnauðganir. Tvö þeirra mála eru nú í ákærumeðferð, dómur er fallinn í einu þeirra í Héraðsdómi og eitt mál var fellt niður.

Guðrún Jónsdóttir segist telja að erfiðara sé að kæra hópnauðganir …
Guðrún Jónsdóttir segist telja að erfiðara sé að kæra hópnauðganir en þær þar sem aðeins einn gerandi á í hlut.

Erfiðara að kæra hópnauðganir

Sama ár voru 10,4 prósent þeirra nauðgana sem tilkynntar voru til Stígamóta framdar af fleiri en einum geranda. Í tveimur tilfellum voru það fjórir menn sem nauðguðu einni konu. Í sjö tilvikum voru það tveir menn, í fjórum tilvikum voru þeir þrír en í sex tilvikum vantaði upplýsingar. Árið áður voru 17 hópnauðganir tilkynntar samtökunum.

Frétt mbl.is: „Brota­vilj­inn mik­ill þegar að menn hóp­ast sam­an til að meiða“

„Ég held að það sé mun erfiðara að kæra hópnauðgun heldur en nauðgun,“ segir Guðrún Jónsdóttir, talskona Stígamóta. „Bara seinast í gær var ég að tala við konu sem var nauðgað af fimm körlum og það hvarflaði ekki að henni að kæra þá vegna þess að henni fannst hún ekkert hafa að gera í þennan hóp karla sem hún þóttist viss um að myndu tala sig saman.

Guðrún segir mikla ógn felast í því þegar hópur taki sig saman um að fremja kynferðisglæp og að til þess þurfi einbeittan brotavilja. Þolendur slíkra glæpa skynji að hættan sé mun meiri en þegar um einn gerningsmann er að ræða.

Aðspurð segist Guðrún vita til þess að nýleg sýknun fimm pilta fyrir Hérðsdómi vegna meintrar hópnauðgunar í Breiðholti í fyrra hafi þegar haft gríðarleg áhrif á fórnarlömb hópnauðgana til eigin mála.

„Ég er alveg viss um það og við höfum heyrt það í könnunum hér innan húss. Þolendur segja að við þá sýknu hafi þeir fengið staðfestingu á því að þeir hefðu aldrei átt að kæra. Í þessu tilviki var meira að segja til myndband af atburðum og það eiga hinar ekki.“

Aldur þolenda þegar þeir leituðu til Stígamóta. Upplýsingar um aldur …
Aldur þolenda þegar þeir leituðu til Stígamóta. Upplýsingar um aldur vantaði hjá tveimur hópnauðungarþolendum og níu nauðgunarþolendum við vinnslu rannsóknar Elsu. Tafla: Elsa Guðrún Sveinsdóttir

Líklegri til sjálfsvígstilrauna

Elsa Guðrún Sveinsdóttir vann meistaraverkefni sitt í félagsráðgjöf við Háskóla Íslands út frá spurningalistum sem þolendur sem leita til Stígamóta svöruðu á árunum 2010-2014.

Tilgangur rannsóknarinnar var að komast að því hverjar afleiðingar nauðgana og hópnauðgana eru, hvort munur væri á afleiðingum eftir kyni þolenda og hvar nauðganir og hópnauðganir eiga sér stað. Á þeim árum sem rannsóknin tók til leituðu 85 konur til Stígamóta vegna hópnauðgunar og sex karlar að sögn Elsu sem segir að miðað við tölur Stígamóta séu hópnauðganir 12 prósent af heildarfjölda kynferðisbrota.

Í útdrætti ritgerðarinnar á Skemmunni segir Elsa að álykta megi að hópnauðganir geti aukið klámáhorf og kynlífsiðkun hjá karlkyns þolendum og þar með aukið líkurnar á klám- og kynlífsfíkn hjá þeim hópi. Þar að auki virðist sem hópnauðganir auki m.a. líkurnar á einbeitingarerfiðleikum, erfiðleikum með kynlíf, ótta og sjálfssköðun, Sýndu niðurstöðurnar að algengast væri að þolendum væri nauðgað eða hópnauðgað á heimili geranda en aðrar algengar staðsetningar voru í heimahúsi,t.d. í partýum, utandyra og á sameiginlegum heimilum.

Elsa Guðrún segir sjálfsvígstilraunir algengari meðal kvenna sem er hópnauðgað …
Elsa Guðrún segir sjálfsvígstilraunir algengari meðal kvenna sem er hópnauðgað en kvenna sem er nauðgað.

Í samtali við mbl.is segir Elsa félagslega einangrun hafa verið algenga hjá konum sem var nauðgað en að einbeitingarskortur og erfiðleikar í tengslum við maka og vini hafi fremur staðið upp úr í svörum kvenkynsþolenda hópnauðgana.

„Hjá konum sem hafði verið hópnauðgað voru sjálfsvígstilraunir og sjálfsvígshugleiðingar algengari en hjá þeim sem hafði verið nauðgað. Hjá körlunum voru slíkar tilraunir aðeins algengari hjá þeim sem höfðu orðið fyrir nauðgun,“ segir Elsa um niðurstöður rannsóknarinnar.

„Næstum því helmingur kvennanna, 47%, sem orðið höfðu fyrir hópnauðgun höfðu gert tilraun til sjálfsvígs en 29% þeirra sem hafði verið nauðgað.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert