Lokað um Hafnarfjall

Myndin er úr safni.
Myndin er úr safni. mbl.is/Ómar Óskarsson

Lokað er um Hafnarfjall en þar er bálhvasst og mikil hálka. Vegfarendur geta farið um Dragháls en þar eru hálkublettir. Farinn er vegur 508 og síðan 520. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Vegagerðinni.

Tilkynningin í heild:

Ábendingar frá veðurfræðingi

Búast má við norðaustan hvassviðri eða stormi og hríðarbyl á öllu norðanverðu landinu í dag með takmörkuðu skyggni, hvassast er á NV-verðu landinu. Einnig er útlit fyrir hríðarveður á fjallvegum austanlands, en þar rignir á láglendi. Á Hellisheiði, Lyngdalsheiði og Mosfellsheiði verður slydda eða snjókoma nokkuð samfelld fram undir hádegi.

Lokað

Lokað er um Hafnafjall þar er bálhvasst og mikil hálka. En vegfarendur geta farið um Dragháls þar eru hálkublettir. Vegur númer 508 síðan númer 520.

Færð og aðstæður

Það er snjóþekja á Hellisheiði en hálkublettir í Þrengslum. Hálka er svo á vegum í uppsveitum Suðurlands.

Á Vesturlandi eru hálkublettir í Borgarfirði. Hálka og skafrenningur er á bæði Holtavörðuheiði og Bröttubrekku. Á Snæfellsnesi er hálka og óveður en þæfingur og óveður er á Fróðárheiði. Þungfært og stórhríð er í Svínadal  vestur í Gilsfjörð.

Ófært er orðið yfir Steingrímsfjarðarheiði, Þröskulda og Klettsháls á Vestfjörðum. Þar er einnig óveður og stórhríð mjög víða. Ófært er um Hrafnseyrar- og Dynjandisheiði og norður í Árneshrepp. Þæfingur og stórhríð er á Innstrandavegi frá Hólmavík í Bitrufjörð.

Á Norðvestur landi er hálka og óveður, þæfingur og stórhríð er á Þverárfjalli. Þæfingur og skafrenningur er á Öxnadalsheiði.

Um norðaustanvert landið er ófært og stórhríð á Tjörnesi, Hólasandi, Hófaskarði og á Brekknaheiði. Þungfært og skafrenningur er á Mývatnsöræfum, þæfingur og stórhríð á Hólaheiði. Mjög slæmt ferðaveður er á þessu svæði.

Á Austurlandi er hálka á öllum leiðum og skafrenningur mjög víða. Þungfært og stórhríð er úr Jökuldal og upp í Mývatnssveit. Þungfært er og skafrenningur á Vopnafjarðarheiði og á Vatnsskarði eystra.

Umferðartafir í Strákagöngum

Vegna vinnu við endurbætur á rafkerfi í Strákagöngum má búast við umferðartöfum
þar á virkum dögum frá klukkan 8:00-18:00 fram til 22. desember.

Vinna á Reykjanesbraut

Vegna frágangsvinnu við hringtorgið við Fitjar á Reykjanesbraut er umferðarhraði takmarkaður við 50 km/klst á vinnusvæðinu.

Vegfarendur eru beðnir velvirðingar á óþægindum sem vinna við vegsvæði veldur og eru hvattir til að fylgja þeim merkingum og leiðbeiningum sem uppi eru hverju sinni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert