Enn 39 einbreiðar brýr á hringveginum

Einbreið brú. Myndin er úr safni.
Einbreið brú. Myndin er úr safni. mbl.is/Rax

Reynt hefur verið að fækka einbreiðum brúm á hringveginum þegar vegabútar eru breikkaðir eða endurnýjaðir. Enn eru þó 39 einbreiðar brýr eftir á hringveginum. Japanskur fjölskyldufaðir á fimmtugsaldri fórst í bílslysi við einbreiða brú í Öræfum á öðrum degi jóla.

Af þeim 39 einbreiðum brúm sem eftir eru á hringveginum eru langflestar á suðausturhorninu, að sögn G. Péturs Matthíassonar, upplýsingafulltrúa Vegagerðarinnar. Skeiðarársandur og Öræfin eru þau svæði sem brýrnar eru einna flestar. Á austursvæði Vegagerðarinnar er 31 einbreið brú en sex á suðursvæðinu.

Stefnt hefur verið að því að fækka einbreiðrum brúm að metrum þar brýrnar eru mislangar og misdýrar, að sögn G. Péturs. Nú eru um fjórir kílómetrar af einbreiðum brúm á hringveginum en hann telur allur á bilinu 1.300-1.400 kílómetra.

„Við tökum þetta eftir þeim verkefnum sem eru í gangi. Stundum er þá tekin einbreið brú og ræsi sett í staðinn. Ef það er verið að breikka og styrkja einhvern vegarkafla, endurnýja veg eða stærri viðhaldsverkefni þá er þeim skipt út,“ segir hann.

Í heildina hefur einbreiðum brúm í vegakerfinu öllu fækkað um hér um bil tíu á ári, samkvæmt upplýsingum Vegagerðarinnar.

Einbreiðar brýr varhugarverðar

Óhöpp þar sem einbreiðar brýr koma við sögu koma alltaf upp annað slagið, að sögn Einars Sigurjónssonar, varðstjóra hjá lögreglunni á Suðurlandi. Ástæðan sé gjarnan sú að ökumenn misreikni aðstæður.

„Ég held að þetta sé oft þannig að menn eru að misreikna fjarlægðir í bíl sem kemur á móti og menn eru að misskilja hvor annan, þeir sem eru ekki vanir að keyra í kringum þessar einbreiðu brýr,“ segir Einar.

G. Pétur tekur undir að einbreiðar brýr séu varhugarverðar og allt sem geti komið ökumanni á óvart sé hættulegt.

„Þrautaráðið þar sem eru hættulegir staðir er að setja blikkandi ljós á einbreiðu brýrnar og náttúrulega að merkja aðdragandann eins og kostur er. Almennt séð erum við náttúrulega bara í svolitlum vandræðum með að upplýsa erlenda ferðamenn um séríslenskar aðstæður,“ segir G. Pétur.

Helst hægt að ná til ferðamanna í gegnum bílaleigurnar

Vegagerðin lét útbúa sérstök spjöld sem sett eru á stýri bíla með upplýsingum um hvers ber að gæta sérstaklega við akstur á Íslandi. Þar er meðal annars varað við einbreiðum brúm. G. Pétur segir hins vegar að Vegagerðin hafi á tilfinningunni að bílaleigur hafi ekki verið nógu duglegar við að koma þeim fyrir í bílum sínum.

„Hugsunin er að það eigi alltaf að vera í bílnum þegar það kemur einhver nýr að honum, sérstaklega náttúrulega útlendingar. Við vitum að það er mjög erfitt að ná til erlendra ferðamanna í umferðinni. Þeir eru flestir á bílaleigubílum og það eru helst bílaleigurnar sem geta náð til þeirra,“ segir hann.

Algengara er þó að erlendir ferðamenn lendi í óhöppum þegar malarvegur tekur við að malbiki en við einbreiðar brýr. Þeir átti sig oft ekki á að þeir þurfi að hægja mun meira á sér þegar þeir koma á mölina.

Úr stýrisspjaldi Vegagerðarinnar um akstur við íslenskar aðstæður.
Úr stýrisspjaldi Vegagerðarinnar um akstur við íslenskar aðstæður.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert