Í farbann vegna banaslyss

Slysið varð við einbreiða brú. Myndin er úr safni og …
Slysið varð við einbreiða brú. Myndin er úr safni og tengist efni fréttarinnar ekki með beinum hætti. mbl.is/RAX

Hæstiréttur hefur vísað frá kæru kínversks ferðamanns sem átti þátt í banaslysi við Hólá í Öræfum á öðrum degi jóla á farbanni sem hann var dæmdur til að sæta. Maðurinn hefur verið úrskurðaður í farbann til 1. mars en hann er sterklega grunaður um að hafa valdið bana hins ökumannsins með gáleysi.

Japanskur ferðamaður á fimmtugsaldri sem var á ferð með fjölskyldu sinni lést í slysinu sem varð við einbreiða brú yfir Hólá á öðrum degi jóla. Héraðsdómur Suðurlands úrskurðaði ökumann bifreiðarinnar sem rakst framan á bíl japönsku fjölskyldunnar í farbann 29. desember. Hann gæti átt yfir höfði sér allt að sex ára fangelsi verði hann ákærður og sakfelldur fyrir að hafa valdið mannsbana af gáleysi.

Maðurinn kærði úrskurðinn til Hæstaréttar. Kærunni var hins vegar vísað frá vegna tækniatriðis. Ekki hafði verið bókað í þingbók í hvaða skyni kært væri og úr því var ekki bætt með skriflegri kæru til héraðsdóms innan kærufrests, að því er segir í niðurstöðu Hæstaréttar.

Í úrskurði héraðsdóms kemur fram að rannsókn lögreglu sé umfangsmikil og ekki sé útilokað að gera þurfi kröfu um áframhaldandi farbann þegar núverandi farbanni lýkur.

Fyrri frétt mbl.is: Japani lést í slysinu

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert