Gunnar sakfelldur í Hæstarétti

Hæstiréttur Íslands.
Hæstiréttur Íslands. mbl.is/Brynjar Gauti

Lögreglumaðurinn Gunnar Scheving Thorsteinsson hefur verið sakfelldur í Hæstarétti Íslands fyrir að hafa greint vini sínum frá því á Facebook að hann hafi verið skallaður af ungum dreng við skyldustörf.

Gunnari var ekki gerð refsing í málinu en hann þarf að greiða áfrýjunarkostnaðinn sem er rúmar 30 þúsund krónur.

Í dómi Hæstaréttar kemur fram að Gunnar hafi verið sakfelldur fyrir að hafa sent tölvuskeyti til tilgreinds manns með nafni og lýsingu á 13 ára gömlum dreng sem Gunnar hafði haft afskipti af í starfi sínu sem lögreglumaður, auk upplýsinga um ástæðu afskiptanna.

Í dóminum kom fram að lögreglumenn eigi að bera þagnarskyldu um þau atvik sem þeim yrðu kunn í starfi sínu eða vegna starfsins og leynt ættu að fara vegna lögmætra almanna- eða einkahagsmuna.

Við ákvörðun refsingar var litið til þess að Gunnar hafði ekki áður hlotið refsingu, hann hefði aðeins greint einum manni frá upplýsingunum og brotið væri ekki stórfellt, að því er kom fram í dóminum.

Var sýknaður í Héraðsdómi Reykjavíkur

Gunnar var sýknaður af ákærunni í Héraðsdómi Reykjavíkur í mars síðastliðnum og tók aftur til starfa í kjölfarið. Saksóknari áfrýjaði málinu til Hæstaréttar Íslands, sem hefur núna kveðið upp sinn dóm.

Gunnar hafði áður verið ákærður fyrir að uppflettingar í innra kerfi lögreglunnar, LÖKE, frá árinu 2007 til 2013 en Ríkissaksóknari féll frá þeirri ákæru í mars.   

Upphaflega var Gunnar grunaður um að hafa flett upp konum í LÖKE og deilt upplýsingum um þær á lokuðum Facebook-hóp með starfsmanni símafyrirtækis í Reykjavík og lögmanni. Þeir voru allir handteknir vegna málsins. Fljótlega var ákveðið að falla frá málinu á hendur tvímenningum en ákveðið að ákæra Gunnar í tveimur liðum.

Gunnar Scheving Thorsteinsson, hefur verið sakfelldur.
Gunnar Scheving Thorsteinsson, hefur verið sakfelldur. mbl.is/Kristinn
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert