Börn leigjenda standa verr

Staða foreldra á húsnæðismarkaði hefur áhrif á aðbúnað barna þeirra.
Staða foreldra á húsnæðismarkaði hefur áhrif á aðbúnað barna þeirra. Morgunblaðið/Golli

Staða barna sem eiga foreldra sem búa í leiguhúsnæði hefur versnað töluvert samkvæmt skýrslu UNICEF á Íslandi. Hlutfall barna í þessum hópi sem búa við skort hefur nær þrefaldast á fimm ára tímabili. Börn þeirra sem eru á leigumarkaði búa við umtalsvert meiri skort á öllum sviðum en þeirra sem búa í eigin húsnæði.

Helsta niðurstaða skýrslunnar er að hlutfall barna sem búa við skort á Íslandi tvöfaldaðist á milli áranna 2009 og 2014. Niðurstöðurnar eru brotnar niður eftir stöðu foreldra og þar kemur fram að staða foreldra á húsnæðismarkaði hefur mikil áhrif.

Fólki á leigumarkaði hefur fjölgað undanfarin ár en það var 28% árið 2013 að því er kemur fram í skýrslu UNICEF sem kynnt var í dag en hún byggir á greiningu Hagstofunnar á lífsgæðakönnun Evrópusambandsins. Hún leiðir í ljós að árið 2014 liðu 19% þeirra barna sem eiga foreldra sem búa í leiguhúsnæði skort en það hlutfall var 6,6% árið 2009.

Búa við umtalsvert meiri skort á öllum sviðum

Um fimmtungur barna í leiguhúsnæði býr við skort á húsnæði en það er meðal annars skilgreint sem þröngbýli og þegar næg dagsbirta kemst ekki inn um glugga húsnæðisins. Það hlutfall hefur raunar lækkað frá árinu 2009 en er engu að síður langt yfir skorti barna almennt á húsnæði. Til samanburðar búa 11,2% barna sem eiga foreldra sem eiga eigið húsnæði við húsnæðisskort.

Almennt búa börn sem eiga foreldra í leiguhúsnæði við umtalsvert meiri skort á öllum sviðum en þau börn sem eiga foreldra í eigin húsnæði. Þannig líða 13,2% barna sem búa í leiguhúsnæði með foreldrum sínum við skort á klæðnaði en aðeins 2,4% barna í eigin húsnæði foreldra.

Hlutfall barna sem líða skort jókst meira í stærri bæjum og í dreifbýli en á höfuðborgarsvæðinu. Í dreifbýli fjórfaldaðist þessi hópur og mælist 9,6%. Í stærri bæjum þrefaldaðist hann og er 11,6% en á höfuðborgarsvæðinu er hlutfallið 8,3%.

Fyrri fréttir mbl.is: 

Skortur hjá börnum eykst á Íslandi

Getur markað börnin varanlega

Úr skýrslu UNICEF á Íslandi
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert