Með handrit að nýrri kvikmynd

Hrafn Gunnlaugsson (t.v.) og Ólafur Gunnarsson eru óneitanlega töffaralegir þarna …
Hrafn Gunnlaugsson (t.v.) og Ólafur Gunnarsson eru óneitanlega töffaralegir þarna við kaggann í hlaðinu á Stóru-Klöpp í Mosfellsbæ þar sem Ólafur býr. Þeir segja að samstarf þeirra við handritsgerðina hafi verið gjöfult fyrir þá báða. mbl.is/Golli

„Við höfum verið að vinna sameiginlega að þessu handriti í fjögur ár. Höfum skipst á textum og gaukað hugmyndum hvor að öðrum. Horft saman á gamlar víkingamyndir, vestra, samúræja, uppfærslur á verkum Wagners og margt fleira,“ segja Hrafn Gunnlaugsson kvikmyndaleikstjóri og Ólafur Gunnarsson rithöfundur. Þeir hafa nú lokið gerð kvikmyndahandrits, sem rekur örlagasögu tveggja ungra manna á landnámsöld Íslands, og leita nú eftir stuðningi Kvikmyndasjóðs og erlendra aðila. Hrafn segist tilbúinn að framleiða myndina, en hann hefur ekki gert mynd síðan hann lauk við Myrkrahöfðingjann árið 1999 og taldi að það yrði sitt síðasta verk.

„Svo gerist það fyrir nokkrum árum að við Ólafur, sem erum gamlir kunningjar úr skóla, hittumst í boði og tökum tal saman. Ólafur varpar fram þeirri hugmynd að ég geri eina kvikmynd enn og lýsir sig reiðubúinn til samstarfs. Mér fannst þetta fjarstæðukennt í fyrstu, væri hættur öllu slíku stússi, en Ólafi tókst að ýta hressilega við mér og eggja mig lögeggjan. Úr varð að við fórum að spá í þetta saman,“ segir Hrafn.

Þetta vatt upp á sig. Hrafn og Ólafur fóru að senda sín á milli hugmyndir og settust ósjaldan niður saman til að horfa á gamla kvikmyndir. En bækur? „Síður. Í rauninni vitum við ekkert með vissu um þetta tímabili. Íslendingasögurnar eru tómur skáldskapur, rómantískar hugmyndir seinni tíma manna um lífið á landnámsöld,“ segir Hrafn og vitnar í skrif Halldórs Laxness sem var mjög gagnrýninn á heimildargildi fornbókmenntanna. „En við lásum Sturlungu sem er samtímaheimild og höfðum gagn af því.“

Ekki endurtekið efni

Hrafn er þekktastur fyrir víkingamyndir sínar og lá þá ekki beint við að bera þar niður aftur? Málið er ekki svo einfalt að sögn Hrafns. „Menn hafa stöðugt verið að nefna við mig að gera eina víkingamynd enn. Þegar eitthvað heppnast vel eins og til dæmis Í skugga hrafnsins vilja framleiðendur endurtaka leikinn. Ég var margsinnis hvattur til þess af erlendum samstarfsmönnum. En ég hafði ekki áhuga á því.“

Ólafur segist kannast við þetta. Söguleg skáldsaga hans um Jón Arason biskup fékk mjög góðar viðtökur fyrir rúmum áratug og stungið var upp á því við hann að taka næst fyrir Ögmund Pálsson biskup. En höfundar og leikstjórar vilja reyna eitthvað nýtt, ekki endurtaka sig.

„Í þessu handriti er allt önnur sýn á víkingatímann eða landnámsöldina en í fyrri myndum mínum,“ segir Hrafn. „Það var Ólafur sem hjálpaði mér að ná annars konar andrúmi sem ég sóttist eftir. Þetta er engin glansmynd af fortíðinni; þetta var harður heimur og óvæginn sem við erum að lýsa í handritinu.“

Hrafn átti ekki von á því að hann langaði til …
Hrafn átti ekki von á því að hann langaði til að taka upp þráðinn við kvikmyndagerð að nýju. Hvatning og fortölur Ólafs breyttu afstöðu hans. Nú dreymir hann verkið á nóttunni. mbl.is/Golli

Saga af fóstbræðrum

Söguefnið er í stuttu máli þetta. Tveir ungir norrænir menn, eiginlega unglingar sem ekki er vaxin grön, fara í víking suður til meginlands Evrópu. Kannski eru þeir frá Noregi; það skiptir ekki máli í myndinni. Þetta er manndómsferð þar sem fífldirfska ræður ferðinni og dauðinn er óhugsandi. Þeir sverjast í fóstbræðralag og lenda í ýmsum ævintýrum. Eru ungir víkingar, eins konar Hell Angels fyrir þúsund árum. Síðan skilur leiðir piltanna. Áratug seinna hittast þeir norður á Íslandi þar sem landnám stendur yfir. Aðstæður eru allt aðrar en áður þegar þeir sóru hvor öðrum eið og tóku á sig skuldbindingar hvor gagnvart öðrum um alla eilífð. Nú reynir á eiðinn svo um munar og um það snýst meginhluti myndarinnar. Það er mikil dramatík í myndinni.

Ná athyglinni strax

„Það að gera svona mynd snýst í aðalatriðum um að geta sagt góða sögu,“ segir Ólafur. „Nái menn ekki athygli áhorfenda á fyrstu tíu mínútunum,“ er leikurinmn tapaður,“ bætir Hrafn við.

Eru fóstbræðurnir persónur sem áhorfendur munu finna til samkenndar með? spyr blaðamaður. „Þeir eru hvorki góðir né vondir í sögunni,“ segja þeir félagar. Þeir hafna því að persónur, hvort sem er í skáldritum eða kvikmyndum, eigi að vera sympatískar. „Þær eiga að ögra, vekja áhuga, spennu, vera stórar í sniðum og hrífandi, en ekki aðdáunarverðar,“ segja þeir og hafa greinilega náð gagnkvæmum skilningi á andanum í verkinu.

Hrafn segir að Ólafur Gunnarsson hafi knúið vinnu þeirra félaga áfram. Hann hafi verið afskaplega duglegur við skriftirnar. Samstarfið hafi verið mjög skapandi og gefandi fyrir þá báða. „Ég spurði Hrafn einu sinni hvað hann hefði gert mörg uppköst að myndinni Í skugga hrafnsins. Um hundrað sagði hann. Ég trúði því mátulega. En nú eru að baki hjá okkur á annað hundrað uppköst að þessu verki og þá átta ég mig á því að Hrafn var að segja dagsatt,“ segir Ólafur.

Dreymir verkið á nóttunni

Hrafn segir að vinnan hafi ekki aðeins falist í skriftunum. Hann hafi verið með myndefnið í höfðinu í langan tíma og stöðugt að hugsa um einstök myndskeið. „Ég hélt áður en þetta hófst að ástríða mín til að gera kvikmynd væri horfin með öllu, en nú er mig farið að dreyma verkið á nóttunni. Það er ekki það atriði í myndinni sem ég hef ekki sviðsett í huganum,“ segir Hrafn.

„Hann hefur næmt auga fyrir smáatriðum,“ segir Ólafur um Hrafn. „Það hefur hjálpað mér mikið þegar ég hef verið að spinna söguþráðinn.“

Handritið gerir ráð fyrir bæði stórum senum og smáum og ljóst að marga leikara þarf til að manna verkið. Hrafn er ekkert farinn að hugsa um þau mál, enda er handritið aðeins á leiðinni í Kvikmyndasjóð og eftir er að þýða það á ensku til að hægt sé að leita stuðnings við framleiðsluna utanlands. Þeir félagar rifja upp hve vel hafi tekist með hlutverk í mörgum fyrri mynda Hrafns. „Það verður vandaverk að velja þá sem leika fóstbræðurna. Í handritinu eru þeir markaðir af erfiðri lífsbaráttu; enginn leikari sællegur af velmegun ræður við slíkt hlutverk,“ segir Hrafn.

Tökur gætu hafist í haust

Það á eftir að koma í ljós hvernig viðtökur verkið fær hjá „kerfinu“. Það verður dýrt að framleiða myndina og mikið umstang í kringum það. En þeim félögum vex það ekki í augum. Þeir sjá fyrir sér að hægt væri að hefja tökur þegar næsta haust og ljúka þeim vorið 2017 ef umsókn þeirra fær góðan byr innanlands og utan. En er Hrafn kannski orðinn of gamall til að framleiða stórmynd, fæddur 1948, kominn fast undir sjötugt? „Ég vil miklu heldur falla á vígvelli kvikmyndagerðarinnar, en deyja úr tómum leiðindum aðgerðalaus,“ segir hann og kveðst fullbúinn í átökin og erfiðið sem framleiðslan mun kalla á.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert