Ljósmæður ósáttar við kjör sín

Mynd úr safni
Mynd úr safni AFP

Sjálfstætt starfandi ljósmæður telja sér ekki fært að starfa við heimaþjónustu komi ekki til verulegrar leiðréttingar á rammasamningi ljósmæðra og Sjúkratrygginga Íslands. Þetta kemur fram í ályktun fundar sjálfstætt starfandi ljósmæðra sem eiga aðild að rammasamningi við Sjúkratryggingar Íslands (SÍ).

„Í janúar 2016 eru 115 ljósmæður aðilar að rammasamningi við SÍ og fá greitt samkvæmt honum fyrir heimaþjónustu við sængurkonur, nýbura og fjölskyldur þeirra, og fyrir aðstoð við heimafæðingar. Rammasamningurinn hefur ekki verið endurnýjaður en fyrri samningur gilti til loka ársins 2015.

Undanfarin ár hefur þessi samningur hækkað um örfá prósent á milli ára og nam hækkunin áramótin 2014-2015 um 3,5%. Samkvæmt fjárlögum á nú að hækka greiðslur til þessa málaflokks um 1%. Sú hækkun er langt fyrir neðan vísitöluhækkanir.  Hvorki þær kjarabætur sem Ljósmæðrafélagi Íslands voru dæmdar á síðasta ári né sú launaleiðrétting sem náðist fram í kjölfar verkfalls ljósmæðra árið 2008 hafa skilað sér inn í þennan samning. 

Þess má geta að nú þiggja 83,7% kvenna heimaþjónustu í sængurlegu og hefur sá fjöldi nær þrefaldast síðastliðin 10 ár eins og fram kemur í úttekt SÍ á þjónustunni. Heimaþjónusta ljósmæðra hefur með þessu dregið verulega úr rekstarkostnaði heilbrigðisstofnana, þar sem sængurlega á sjúkrahúsum hefur styst.

Fundurinn lýsir yfir áhyggjum af því að stór hluti ljósmæðra muni ekki sjá sér fært að starfa við heimaþjónustu komi ekki til verulegrar leiðréttingar á rammasamningi ljósmæðra og SÍ. Fari svo er ljóst að heimaþjónustan mun skerðast verulega og því munu færri konur vera útskrifaðar snemma af fæðingardeildum. Þetta mun stórauka kostnað samfélagsins við sængurlegu kvenna og nýbura á sjúkrahúsum,“ segir í ályktun ljósmæðranna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert