Kostar 13,2 milljarða að útrýma einbreiðum brúm

Það eru alls 26 einbreiðar brýr í Suðurkjördæmi.
Það eru alls 26 einbreiðar brýr í Suðurkjördæmi. mbl.is/RAX

Áætlaður kostnaður við að útrýma einbreiðum brúm á hringveginum er um 13,2 milljarðar íslenskra króna. Þetta kemur fram í svari innanríkisráðherra við fyrirspurn Vigdísar Hauksdóttur, þingkonu Framsóknarflokksins á Alþingi. Í svarinu kemur jafnframt fram að á hringveginum eru nú 39 einbreiðar brýr og er heildarlengd þeirra 3.796 metrar. Meðalaldur þessara brúa er um 50 ár.

Brýrnar eru í tveimur kjördæmum, 26 stykki í Suðurkjördæmi en 13 í Norðausturkjördæmi.

Í svari ráðherra kemur fram að vegna breytinga á rennsli jökulvatna og breytinga á veglínum mun heildarlengd þessara brúa breytast við endurbyggingu.

„Mest munar um að í stað 880 m langrar brúar yfir Skeiðará verður byggð 68 m löng brú yfir Morsá. Fjöldi brúa mun hugsanlega breytast vegna breytinga á veglínum, en hér er ekki tekið tillit til þess,“ segir í svarinu.

Er kostnaðurinn eins og fyrr segir 13,2 milljarðar og skiptist niður í 9,8 milljarða í Suðurkjördæmi og 3,8 milljarða í Norðausturkjördæmi.  

Við endurbyggingu brúa er mjög víða veglínu breytt en ekki er tekið tillit til þess kostnaðar í fyrrnefndum tölum. Er eingöngu miðað við byggingarkostnað brúa. „Kostn­aður við nýja vegi að brúnum getur í sumum tilfellum verið umtalsverður,“ segir í svari ráðherra.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert