Laxar eru að hverfa í Noregi

Íslenskur lax í Norðurá í Borgarfirði.
Íslenskur lax í Norðurá í Borgarfirði. mbl.is/Einar Falur Ingólfsson

Í vikunni var haldinn fundur í sjávarútvegsráðuneyti Rússlands til að ræða stöðu villtra laxastofna og umhverfismál í Norðaustur-Atlantshafi. Fundinn sátu sjávarútvegsráðherra Rússlands ásamt rússneskum sérfræðingum í stjórnsýslu á alþjóðasviðum, fiskeldismálum og hafrannsóknum (PINRO) auk embættismanna stjórnsýslu rannsóknar-, þróunar- og fræðslumála í Rússlandi. Einnig mættu á fundinn Orri Vigfússon, formaður NASF, Verndarsjóðs villtra laxastofna, og Albert Jónsson, sendiherra Íslands í Rússlandi, sem hafði milligöngu um þátttöku í fundinum.

Fram komu áhyggjur af stöðu laxastofna í Atlantshafi og veiðum Norðmanna á löxum sem eiga uppruna sinn í rússneskum laxveiðiám.

„Við höfum lengi verið í góðu sambandi við Rússa út af laxamálum vegna þess að þeir hafa sýnt þessu talsverðan stuðning á alþjóðavettvangi en við höfum verið að bjarga svo miklu af laxi sem á uppruna í rússneskum ám á Kólaskaganum,“ segir Orri í samtali við mbl.is. Að sögn Orra vanvirða Norðmenn tillögu sem fyrir mörgum árum var samþykkt af alþjóðavísindasamfélaginu um að hætta veiðum úr blönduðum stofnum.

Að sögn Orra var ákveðið á alþjóðafundi í Osló 1994 að hætta öllum slíkum veiðum. „Það eru allir búnir að ákveða að gera þetta, nýlega bættust Írar og Skotar í hópinn en eftir sitja Norðmenn og þeir ætla sko ekkert að hætta,“ segir Orri.

„Það sem er verra er að í Norður-Noregi, hjá Tromsö og Finnmörku, rétt við Rússland, leyfa Norðmenn notkun á svokölluðum „krokgarn“-netum sem eru mjög hættuleg. Þau eru bönnuð alls staðar annars staðar í heiminum, líka í Noregi, en eru leyfð þarna nyrst. Við erum auðvitað óhressir með það en þarna eru þeir aðallega að veiða rússneskan lax.“

Að sögn Orra skemma netin laxinn, en hann hálffestist í netinu, losnar og drepst síðan seinna. „Þetta er mjög slæm veiðiaðferð enda eru allir aðrir búnir að banna þetta,“ segir hann.

Á fundinum í Moskvu lögðu Rússar til að haldin yrði alþjóðaráðstefna til þess að vekja athygli á því á hversu hraðri niðurleið laxastofnar eru og hvað væri hægt að gera til að bæta þetta, og segir Orri næsta skref að skipuleggja þá ráðstefnu. „Nú verður þetta rætt í hinum og þessum löndum og þá sjáum við hvaða viðbrögð þetta fær.“

Að sögn Orra hefur NASF verið smátt og smátt að gera viðskiptasamninga við ríki um þessar veiðar og kvóta. „Við erum langt komnir og erum að verða búnir. En við eigum eftir að semja við Norðmenn,“ segir Orri, en NASF fundaði síðast með Norðmönnum í október 1993. Nú eru Norðmenn loksins búnir að samþykkja nýjan fund.

Orri segir að laxastofnarnir séu hrikalega illa farnir í Noregi vegna neikvæðra áhrifa frá fiskeldi. Haldin var ráðstefna í Noregi nýlega þar sem farið var yfir stöðuna. Þar kom m.a. fram að aðeins um 22% norskra laxáa teldust í góðu ástandi og vistvænar.

„Staðreyndir er sú að laxar eru að hverfa í Noregi og Norðmenn gera næstum því ekkert til þess að stöðva það.“

Sjávarútvegsráðherra Rússlands, Ilya Shestakov, tekur við nýútkominni laxabók úr hendi …
Sjávarútvegsráðherra Rússlands, Ilya Shestakov, tekur við nýútkominni laxabók úr hendi Orra á fundinum. Af vef rússneska sjávarútvegsráðuneytinu
Orri og Albert Jónsson, sendiherra Íslands í Rússlandi.
Orri og Albert Jónsson, sendiherra Íslands í Rússlandi. Af vef rússneska sjávarútvegsráðuneytinu
Af vef rússneska sjávarútvegsráðuneytinu
Af vef rússneska sjávarútvegsráðuneytinu
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert