Ákærður fyrir manndráp af gáleysi

Héraðsdómur Suðurlands.
Héraðsdómur Suðurlands. mbl.is

Tuttugu og átta ára kínverskur ríkisborgari hefur verið ákærður fyrir manndráp af gáleysi, fyrir að hafa ekið bíl of hratt inn á einbreiða brú miðað við aðstæður þar sem snjór og krapi var á veginum og án nægilegrar aðgæslu þannig að hann hafði ekki fulla stjórn á bílnum.

Bíll sem maðurinn ók skall framan á vinstra framhorn bíls sem ekið var í gagnstæða átt og átti skammt ófarið yfir brúna með þeim afleiðingum að bílstjóri síðarnefnda bílsins hlaut mikla áverka á brjósti og lést skömmu síðar.

Um er að ræða banaslys sem varð laugardaginn 26. desember á síðasta ári á einbreiðri brú á Hólá í Öræfasveit.

Þess er einnig krafist að maðurinn verði sviptur ökuréttindum. Málið var þingfest fyrir héraðsdómi Suðurlands í síðustu viku og sætir ákærði farbanni til 22. apríl. 

Frétt mbl.is: Áfram í farbanni vegna banaslyss

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert