Aurum-málið frestast

Frá aðalmeðferð Aurum-málsins í héraði þegar málið var flutt í …
Frá aðalmeðferð Aurum-málsins í héraði þegar málið var flutt í fyrra skiptið. mbl.is/Þórður

Aðalmeðferð í Aurum Holding-málinu hefur verið tekin út af dagskrá héraðsdóms og milliþing sett í staðinn núna í byrjun apríl. Hafa verjendur lagt fram matsbeiðni í kjölfar dóms  Hæstaréttar um að efni væru til um að matsmenn bæru vitni í málinu.

Milliþingið verður haldið 5. apríl næstkomandi, en aðalmeðferð átti að hefjast 12. apríl. Þykir fyrirséð að ekki náist að útkljá beiðni verjendanna á einni viku og hefur aðalmeðferðinni því verið frestað.

Saksóknari í málinu hafði óskað eftir því að matsmenn yrðu fengnir til að bera vitni í málinu vegna matsgerðar sem unnin hafði verið fyrir skaðabótarmál slitastjórnar Glitnis. Héraðsdómur féllst ekki á það en í úrskurði Hæstaréttar var því snúið við.

Helgi Sigurðsson, einn verjandinn í málinu, segir að verjendur hafi áskilið sér rétt til að óska eftir að dómkvaddir yrðu matsmenn í sakamálinu til leggja mat á verðmæti félagsins Aurum Holding. Með því gæfist m.a. kostur á að leggja fyrir matsmennina ýmis samtímagögn sem ekki lágu fyrir í einkamálinu og voru ekki hluti af matsferlinu þar. Auk þess eru ýmis sjónarmið sem koma til skoðunar í refsimáli en eiga síður við í einkamáli sem gætu haft áhrif á slíka matsbeiðni.

Aurum Holding-málið hefur verið lengi til meðferðar í dómskerfinu, en upphaflega var ákært í málinu í desember 2012 og það þingfest í janúar 2013. Aðalmeðferð málsins fór svo fram á fyrri hluta ársins 2014. Voru allir sakborningar í málinu sýknaðir, en Hæstiréttur ógilti svo dóminn vegna tengsla meðdómara við sakborninga í Al Thani-málinu svokallaða. Þá var settum dómara málsins, Guðjóni St. Marteins­syni gert að víkja til að gæta óhlutdrægni í málinu. Síðan þá hefur talsvert verið tekist á um dómara málsins sem og matsskýrslur. Málið hefur því verið fyrir dómstólum núna í rúmlega 3 ár.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert