Mál Sigmundar „á öðru kalíberi“

Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna.
Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna. mbl.is/Árni Sæberg

Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, segir flokkinn ekki óttast að ganga til kosninga núna en stjórnarandstöðuflokkarnir leggja fram tillögu um þingrof eftir helgi þegar Alþingi kemur saman eftir páskafrí. Katrín segir það mikilvægt að almenningur í landinu fái að koma að málum í ljósi nýrra upplýsinga um að þrír ráðherrar ríkisstjórnarinnar tengist svonefndum aflandsfélögum.

Spurð hvort hún sé sammála Birgittu Jónsdóttur, þingmanns Pírata, sem lýsti því yfir í morgun í samtali við mbl.is að tillögu um þingrof sé fyrst og fremst beint gegn Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni, forsætisráðherra, segir Katrín að forsætisráðherra sé vissulega höfuð ríkisstjórnarinnar og það sé erfitt að horfa fram hjá því. Katrín segir ennfremur að ákveðinn munur sé á málum ráðherranna þriggja og mál forsætisráðherrans sé „á öðru kalíberi en hin málin.“

Frétt mbl.is: Snýr fyrst og fremst að Sigmundi Davíð

Hún á von á því að allir þingmenn Vinstri grænna komi til með að styðja tillöguna um þingrof en þorir ekki að spá fyrir um það hvort hún verði samþykkt. „Ég veit það ekki, en miðað við afstöðu forsvarsmanna stjórnarflokkanna þá óttast þeir ekki kosningar,“ segir hún af því tilefni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert