Valdið hjá forsætisráðherra

Stjórnarandstaðan hyggst leggja fram þingsályktunartillögu um þingrof og nýjar kosningar.
Stjórnarandstaðan hyggst leggja fram þingsályktunartillögu um þingrof og nýjar kosningar. Morgunblaðið/Ómar

Samþykki Alþingi þingsályktunartillögu sem stjórnarandstaðan áformar um þingrof hefur það engin bein réttaráhrif, að sögn Helga Bernódussonar, skrifstofustjóra Alþingis. Valdið sé hjá forsætisráðherra sem væri ekki bundinn af ályktuninni. Honum væri þó varla pólitískt stætt á að hunsa hana.

Stjórnarandstöðuflokkarnir samþykktu á fundum þingflokka sinna í gær að leggja fram þingsályktunartillögu um að þing verði rofið og boðað verði til nýrra kosninga þegar þing kemur aftur saman eftir páskafrí eftir helgina. Ástæðuna segja þeir reiðibylgju í samfélaginu vegna uppljóstrana um aflandsfélög í skattaskjólum í eigu eiginkonu forsætisráðherra og ráðherra í ríkisstjórninni.

Sérréttindi framkvæmdavaldsins

Helgi bendir á að samkvæmt 24. grein stjórnarskrárinnar geti forseti rofið þing en það sé auðvitað bundið við tillögu forsætisráðherra og atbeina í samræmi við 13. og 19. grein stjórnarskrár.

„Alþingi getur auðvitað lýst yfir vilja sínum í þessum efnum en valdið er hjá forsætisráðherra. Það eru engin bein réttaráhrif [af samþykkt þingrofstillögu] vegna þess að þetta er „prærogativ“ (sérréttindi) framkvæmdavaldsins og það er ekki bundið af samþykkt þingsins sjálfs í þessum efnum,“ segir Helgi.

Pólitískur veruleiki sé hins vegar sá að væri slík tillaga samþykkt væri forsætisráðherra ekki stætt á öðru en að verða við því að gera tillögu um þingrof eða biðjast lausnar.

„Ég býst við að það sé hinn pólitíski veruleiki en fræðin mundu segja að forsætisráðherra væri ekki skyldugur til þess,“ segir Helgi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert