Sigmundur stígi fram í dag

Ásmundur Einar Daðason, þingflokksformaður Framsóknarflokksins.
Ásmundur Einar Daðason, þingflokksformaður Framsóknarflokksins. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þingflokksformaður Framsóknarflokksins telur að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra muni stíga fram í dag og fara betur yfir þau mál sem snúa að honum vegna umfjöllunar um það efni sem er að finna í Panamaskjölunum.

Þetta kom fram í Morgunútvarpi Rásar 2 í morgun þar sem meðal annars var rætt við Ásmund Einar Daðason.

„Þingflokkur Framsóknarflokks hefur ekki fengið tækifæri til að funda ennþá. Við munum gera það núna fyrir hádegi líkt og aðrir þingflokkar enda ekki nein önnur dagskrá í þinginu núna fyrri hluta dags.

Mín fyrstu viðbrögð við þessu, við þættinum almennt, er að það kom mér á óvart hversu í rauninni umfangsmikil þessi aflandsfélög almennt eru og þarna erum við að tala um leka frá einni lögfræðiskrifstofu og í rauninni bara einum banka. Þarna er ekki gamla Kaupþing og gamli Glitnir,“ sagði Ásmundur Einar.

Hann sagði að efnislega hefði ekkert nýtt komið fram í Kastljósinu í gær varðandi mál forsætisráðherra, Sigmundur hefði þegar verið búinn að greina frá atriðunum, meðal annars á heimasíðu sinni.

„En hins vegar held ég að það sé alveg ljóst að viðtalið, þátturinn, birtist okkur í gær náttúrlega, mín fyrstu viðbrögð eru náttúrlega þau að þetta er auðvitað ekki þægileg staða en engu að síður gagnvart þeim atriðum sem þarna komu fram, kannski gagnvart forsætisráðherra, kom efnislega ekkert nýtt fram sem ekki hafði komið fram í hans yfirlýsingum áður, á heimasíðu hans og svo framvegis.

En ég þykist nú vita að hann muni líklega stíga fram í dag, hvort sem er í fjölmiðlum eða öðru, í þinginu, og fara betur yfir þau mál sem snúa að honum. Og ég þykist vita að aðrir ráðherrar geri slíkt hið sama, sem þarna voru til umfjöllunar,“ sagði Ásmundur Einar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert