Skora á Sigmund að segja af sér

Akureyri.
Akureyri. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Bæjarfulltrúar Framsóknarflokksins á Akureyri hafa skorað á Sigmund Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra og formann flokksins, að segja af sér. Segja þeir að trúnaðarbrestur hafi skapast milli ráðherrans og flokksmanna.

Áskorunin var birt á Facebook-síðu Guðmundar Baldvins Guðmundssonar, oddvita Framsóknarmanna í bæjarstjórn Akureyrar.

Undir áskorunina rita einnig fyrrverandi oddvitar flokksins, Jóhannes Gunnar Bjarnason og Jakob Björnsson, og Björn Snæbjörnsson, formaður verkalýðsfélagsins Einingar-Iðju og formaður Starfsgreinasambands Íslands.

Áskorunin í heild:

Áskorun

Vegna þess trúnaðarbrests sem við teljum að skapast hafi milli forsætisráðherra og flokksmanna Framsóknarflokksins sem og landsmanna allra, skorum við á Sigmund Davíð Gunnlaugsson að segja sig frá störfum forsætisráðherra án frekari tafa.

Guðmundur Baldvin Guðmundsson bæjarfulltrúi Framsóknarflokksins á Akureyri,

Ingibjörg Ólöf Isaksen bæjarfulltrúi Framsóknarflokksins á Akureyri,

Siguróli M. Sigurðsson varabæjarfulltrúi Framsóknarflokksins á Akureyri,

Tryggvi Már Ingvarsson varabæjarfulltrúi Framsóknarflokksins á Akureyri

Óskar Ingi Sigurðsson varaformaður umhverfisnefndar Akureyrarbæjar

Jóhannes Gunnar Bjarnason

Jakob Björnsson

Björn Snæbjörnsson

Viðar Valdimarsson

Uppfært kl. 21.26:

Eftirfarandi tilkynning hefur verið birt á vef Sjálfstæðisflokksins á Akureyri:

Stjórn fulltrúaráðs sjálfstæðisfélaganna á Akureyri, aðal- og varabæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins á Akureyri harma þá atburðarás sem átt hefur sér stað síðustu daga og vikur. Í ljósi aðstæðna er trúverðugleiki ríkisstjórnarinnar brostinn og getur hún því ekki starfað áfram undir forystu núverandi forsætisráðherra.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert