Þingrof ef sjálfstæðismenn styðja ekki stjórn

Sigmundur Davíð horfir til himins í þingsalnum í gær.
Sigmundur Davíð horfir til himins í þingsalnum í gær. mbl.is/Eggert

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra, segir að á fundi hans og fjármálaráðherra í morgun hafi hann farið yfir það að „ef þingmenn flokksins treystu sér ekki til að styðja ríkisstjórnina við að ljúka sameiginlegum verkefnum okkar myndi ég rjúfa þing og boða til kosninga hið fyrsta.“ Þetta skrifar Sigmundur Davíð á Facebook-síðu sína. Bjarni kom til landsins í morgun eftir tveggja vikna páskafrí. Hann og Sigmundur funduðu í kjölfarið. Nú er þeim fundi lokið.

Hér fer færslan í heild: 

„Nú í morgun átti ég mjög góðan fund með Bjarna Benediktssyni, formanni Sjálfstæðisflokksins. Við ræddum árangur ríkisstjórnarinnar og mikilvægi þess að klára þau stóru verkefni sem undirbúin hafa verið síðustu misseri og ár. Mörg þeirra eru gríðarlega mikilvæg fyrir íslenskt samfélag

Meðal annars þarf að ljúka afnámi fjármagnshafta, endurskipuleggja fjármálakerfið svo að það virki í þágu almennings, ljúka því sem ríkisstjórnarflokkarnir höfðu samþykkt um afnám verðtryggingar og innleiða umfangsmiklar úrbætur í húsnæðismálum. Mörgum þessara verkefna hefði ég viljað sjá vinda hraðar fram en enn er þó nægur tími til að klára þau, sé viljinn fyrir hendi.

Jafnframt fór ég yfir það með formanni Sjálfstæðisflokksins að ef þingmenn flokksins treystu sér ekki til að styðja ríkisstjórnina við að ljúka sameiginlegum verkefnum okkar myndi ég rjúfa þing og boða til kosninga hið fyrsta.

Ég er stoltur af verkum mínum í stjórnmálum til þessa og óhræddur við að leggja þau í dóm kjósenda hvort sem það verður gert nú eða síðar. Ég er líka stoltur af eiginkonu minni og þeim heiðarleika og fórnfýsi sem hún hefur ætíð sýnt.

Hvort sem litið er til stjórnmálabaráttu undanfarinna ára og alls þess sem þar hefur gengið á, bæði opinberlega og innbyrðis, eða til persónulegra málefna fjölskyldu minnar get ég óhræddur, óhikað og með ánægju svarað fyrir verk mín og ákvarðanir. Þegar ég ákvað að hefja þátttöku í stjórnmálum gerði ég það vegna þess að ég hafði ákveðna sýn á hvað væri nauðsynlegt að gera til að koma íslensku samfélagi á réttan kjöl og gera því kleift að nýta þau óþrjótandi tækifæri sem þjóðin býr yfir, samfélaginu öllu til heilla. Það hefur gengið betur en jafnvel ég þorði að vona að vinna að þeirri framtíðarsýn og henni mun ég fylgja áfram á meðan mér gefst tækifæri til.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert