Breytt ríkisstjórn ekki krafa almennings

Björt Ólafsdóttir, þingmaður Bjartrar framtíðar.
Björt Ólafsdóttir, þingmaður Bjartrar framtíðar.

„Þetta er ekki sú krafa sem almenningur og við í stjórnarandstöðu höfum sett fram. Það er alveg ljóst að fólk er ekki bara að biðja um afsögn Sigmundar Davíðs heldur allrar ríkisstjórnar hans. Það þarf að gerast strax og halda kosningar sem fyrst,“ segir Björt Ólafsdóttir þingmaður Bjartrar framtíðar spurð um þær áætlanir sem heyrst hafa úr röðum ríkisstjórnarinnar, um að hún sitji áfram með breytingum þar til boðað verði til kosninga í haust.

„Frá upphafi hefur vantrauststillagan verið á Sigmund Davíð og hans ríkisstjórn. Það er ekki bara Wintris-málið heldur eru fleiri aðilar í ríkisstjórninni sem eiga aflandsfélög. Það þarf að gera það upp sömuleiðis,“ segir Björt í samtali við mbl.is.

Myndi gera það hundrað sinnum

Fari fram sem horfir, að ný ríkisstjórn stjórnarflokkanna verði tilkynnt í kvöld, segir Björt að engu að síður muni stjórnarandstaðan leggja fram aðra vantrauststillögu á hendur henni.

Björt framtíð hefur mælst með lítið fylgi undanfarin misseri og í niðurstöðum könnunar sem birtar voru í dag mátti sjá að aðeins 3,8 prósent landsmanna myndu kjósa flokkinn. Þrátt fyrir það segist Björt standa keik gagnvart því að kosið sé að nýju í bráð.

„Þetta er einfaldlega miklu stærra verkefni en það sem snýr að einstaka þingmönnum. Við erum ekki hrædd við að ganga til kosninga. Ef ég þarf að fórna mér persónulega til þess að fólkið í landinu fái kosningar þá myndi ég gera það hundrað sinnum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert