Hvar liggur „misskilningurinn“?

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson eftir fund sinn með forsetanum á Bessastöðum …
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson eftir fund sinn með forsetanum á Bessastöðum í hádeginu í gær. mbl.is/Eggert

Kom fram í tillögu Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, sem samþykkt var á þingflokksfundi Framsóknar í gær, að hann hefði falið varaformanninum að taka við embætti forsætisráðherra „um ótilgreindan tíma?“ Svarið er nei. Það kemur hvergi fram í tillögunni. Því er þó haldið fram í sérstakri tilkynningu sem forsætisráðuneytið sendi til erlendra fjölmiðla, á ensku, í gær, og einnig af aðstoðarmanni Sigmundar í frétt mbl.is í gærkvöldi.

Mátti skilja tillögu Sigmundar á þann veg að hann hefði eða ætlaði að segja af sér? Svarið er: Orðalagið að „segja af sér“ kemur hvergi fram í tillögunni en fjölmiðlar um allan heim gátu þó ekki skilið hana öðruvísi. Enda stendur þar orðrétt: „Forsætisráðherra leggur til að varaformaður flokksins taki við embætti forsætisráðherra svo það megi verða til að ríkisstjórnin geti lokið þeim mikilvægum verkum sem hún hefur unnið að og varða mikilvæga þjóðarhagsmuni.“

Úr tillögunni sem samþykkt var á þingflokksfundinum.
Úr tillögunni sem samþykkt var á þingflokksfundinum. Skjáskot

Sum sé, fjölmiðlar hér heima og erlendis töldu ljóst að Sigmundur væri að segja af sér sem forsætisráðherra. En einhver misskilningur er þar á ferðinni, að sögn Jóhannesar Þórs Skúlasonar, aðstoðarmanns Sigmundar Davíðs.

Og varðandi þetta með óákveðinn tíma þá er þetta nú bara ná­kvæm­lega það sem gerðist, eins og þeir sögðu þegar þeir komu út, þá var til­lag­an þannig að það var lagt til við þing­flokk­inn að [Sig­mund­ur] stigi til hliðar og Sig­urður Ingi [Jóhannsson] tæki við embætt­is­skyld­um ráðherra um lengri eða skemmri tíma, eft­ir því sem semd­ist milli flokk­anna,“ sagði Jóhannes í samtali við mbl.is í gærkvöldi.

Þetta er ekki rétt. Í tillögunni er hvergi talað um „lengri eða skemmri tíma“. Vel kann að vera að annað hafi verið sagt inni á fundinum, sem var lokaður öllum öðrum en þingmönnum flokksins. 

Svo sagði Jóhannes við mbl.is: „Þetta er þannig sem þeir orða þetta þegar þeir koma út og ég hef ekk­ert heyrt neitt annað en að það hafi verið þetta sem menn sam­mæltust um.“

En hvað sögðu þeir Sigmundur og Sigurður Ingi við fjölmiðla eftir fundinn?

Sigmundur Davíð sagði lítið er hann kom út af þingflokksfundinum en þó að margt „skemmtilegt“ og áhugavert“ væri að gerast.

Það sem Sigurður Ingi sagði var þetta: „Forsætisráðherra lagði það til á þingflokksfundi að hann myndi stíga til hliðar sem forsætisráðherra og lagði til að ég tæki við því embætti en hann mun halda áfram sem formaður flokksins. Þessi tillaga var samþykkt af þingflokknum.“

Það sem er ljóst á orðum Sigurðar er því að a)Sigurður Ingi átti að taka við embætti forsætisráðherra og Sigmundur stígur til hliðar og b) Sigmundur verður áfram formaður flokksins. 

Mögulega er það orðalagið „að stíga til hliðar“ sem hefur valdið misskilningi. Margir lögðu þann skilning í þetta orðalag að þar með væri forsætisráðherrann farinn frá, hættur, hefði/ætlaði að segja af sér. Það skal þó ítrekað að að í tillögunni, sem þingmenn Framsóknar samþykktu, var ekki talað um að „stíga til hliðar“ - það var talað um að varaformaðurinn tæki „við embætti forsætisráðherra“ og hvergi minnst á að hann yrði áfram formaður flokksins. 

Eiður Svanberg Guðnason, sem bloggað hefur um íslenskt mál lengi, segir m.a. á einum stað í málfarsmolum sínum að orðatiltækið að „stíga til hliðar“ þýði að einhver ætli að hætta þátttöku. Draga sig í hlé. Hætta. Eiður segir reyndar orðatiltækið „aulaþýðingu úr ensku“ to step aside.

Erlendum fjölmiðlum var send fréttatilkynning í gær sem var öðruvísi orðuð en sú tillaga sem send var mbl.is kl. 17.31, eftir þingflokksfundinn. Í ensku tilkynningunni kom fram að forsætisráðherra hefði lagt það til að varaformaðurinn tæki við sem forsætisráðherra í „ótilgreindan tíma“ (e. for an unspecified amount of time). Þá sagði: „Forsætisráðherrann hefur ekki sagt af sér og mun halda áfram sem formaður,“ eða eins og það er orðað á ensku: The Prime minister has not resigned and will continue to serve as Chirman of the Progressice Party.“

Fyrir áhugasama má sjá hér að neðan tillöguna sem samþykkt var á fundinum í heild sem og skjáskot af tilkynningunni sem send var erlendum fjölmiðlum á ensku.

Tillagan sem send var út eftir þingflokksfundinn:

„Tillaga frá Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni forsætisráðherra sem samþykkt var á þingflokksfundi Framsóknar 5.04.2016.

Forsætisráðherra leggur til að varaformaður flokksins taki við embætti forsætisráðherra svo það megi verða til að ríkisstjórnin geti lokið þeim mikilvægum verkum sem hún hefur unnið að og varða mikilvæga þjóðarhagsmuni.

Þingflokkurinn lýsir ánægju með þá virðingarverðu afstöðu formannsins sem felst í því að hann skuli vera reiðubúinn að stíga þetta skref til að gera ríkisstjórninni kleift að vinna áfram að þeim mikilvægu verkefnum sem nú liggja fyrir.  Þingflokkurinn styður eftir sem áður formann flokksins og þykir mikilvægt að halda áfram þeirri vinnu sem formaðurinn hefur átt svo stóran þátt í að leggja grunn að.

Formaður, varaformaður og aðrir þingmenn flokksins eru sammála um að  mikilvægt sé að halda áfram að upplýsa um þann fjölda fyrirtækja í eigu Íslendinga sem skráð eru erlendis til að tryggja að allir standi skil á sínu til samfélagsins eins og formaður flokksins og kona hans hafa gert.“

Og skjáskot af ensku fréttatilkynningunni sem send var erlendum fjölmiðlum:

mbl.is fékk tilkynninguna áframsenda.
mbl.is fékk tilkynninguna áframsenda. Skjáskot

 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert