Áhugi á að grípa inn í söluna

Sigrún Magnúsdóttir, umhverfis- og auðlindaráðherra.
Sigrún Magnúsdóttir, umhverfis- og auðlindaráðherra. mbl.is/Eggert

„Eðlilega ber maður umhyggju fyrir þessu viðkvæma svæði sem jafnframt er einn fjölsóttasti ferðamannastaður landsins. Æskilegast væri að slík svæði séu í eigu ríkisins en hvort hægt sé að ganga inn í alla samninga er ekki alveg á mínu borði,“ segir Sigrún Magnúsdóttir, umhverfis- og auðlindaráðherra, í samtali við mbl.is.

Vísar hún í máli sínu til þeirrar ákvörðunar sýslumannsins á Suðurlandi að setja jörðina Fell, sem meðal annars á um helming Jökulsárlóns, á sölu á almennum markaði.

Þegar mbl.is náði tali af Sigrúnu var hún á leið á fund með sérfræðingum ráðuneytisins til að fara betur yfir þetta mál.

„Þetta mál hefur verið rætt innan ráðuneytisins en ef kaupa á jarðir er slíkt í höndum fjármálaráðherra,“ segir Sigrún og heldur áfram: „Áhuginn og umhyggjan er fyrir hendi, það er alveg ljóst, en hvernig og hvort það verður gert á eftir að koma í ljós.“

Þá bendir Sigrún á að umrætt svæði sé á náttúruminjaskrá. En í 37. gr. laga nr. 60/2013 um náttúruvernd segir: „Ríkissjóður skal hafa forkaupsrétt að jörðum og öðrum landareignum sem eru að hluta eða öllu leyti á náttúruminjaskrá að þeim aðilum frágengnum sem veittur er forkaupsréttur með jarðalögum. Skal frestur ríkissjóðs til að svara forkaupsréttartilboði vera 60 dagar frá því að tilboðið barst. Að öðru leyti gilda um forkaupsréttinn ákvæði jarðalaga.“

„Þegar sýslumanni hefur borist kauptilboð þá getum við, líkt og stendur í lögunum, gengið inn í það og haft forkaupsréttinn - ef fjármálaráðuneytið og ríkisstjórn samþykkir,“ segir Sigrún.

Fyrri frétt mbl.is:

Jökulsárlón í opið söluferli fljótlega

Stjórnvöld grípi inn í sölu Jökulsárslóns

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert