Forsetinn boðar til blaðamannafundar

Ólafur Ragnar Grímsson ræðir við fjölmiðla eftir fund sinn með …
Ólafur Ragnar Grímsson ræðir við fjölmiðla eftir fund sinn með Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni fyrir tveimur vikum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson, hefur boðað til blaðamannafundar á Bessastöðum kl. 16.15 í dag. Ekki kemur fram í tilkynningu frá skrifstofu forseta Íslands hvert tilefni fundarins er. Örnólfur Thorsson forsetaritari, segist í samtali við mbl.is, vera „þögull sem gröfin“, varðandi efni fundarins. Ólafur hefur setið sem forseti í tvo áratugi en hann var fyrst kjörinn árið 1996. Hann tilkynnti um áramótin að hann ætlaði ekki að gefa áfram kost á sér.

Tvær vikur eru liðnar síðan Ólafur Ragnar flýtti heimför sinni úr fríi í kjölfar uppljóstrana Reykjavík Media um aflandsfélag Sigmundar Davíð Gunnlaugssonar, þáverandi forsætisráðherra. Sigmundur Davíð fór á þriðjudegi á fund forsetans ásamt embættismönnum forsætisráðuneytisins. Ólafur sagði eftir fundinn að Sigmundur hefði beðið um að þing yrði rofið en hann neitað að verða við því.

Sigmundur lýsti því yfir eftir fundinn með Ólafi að hann hefði alls ekki óskað eftir því að fá heimild til að rjúfa þing. Forsetinn færi með öðrum orðum ekki með rétt mál. Ólafur boðaði þá til blaðamannafundar á Bessastöðum til þess aðbregðast við orðum Sigmundar sem þá var enn forsætisráðherra. Þar sagði forsetinn:

„Ég hafði ekki ætlað mér að halda hér í dag blaðamannafund á Bessastöðum. Ég tel óhjákvæmilegt í ljósi ummæla forsætisráðherra fyrr í dag og þess fundar sem við höfum átt hér á Bessastöðum að ég geri ykkur og þjóðinni um leið skýra grein fyrir mínum sjónarmiðum og afstöðu til þess erindis sem  hann kom með hingað til Bessastaða.“

Ólafur sagði þá Sigmund hafa rætt málið nokkuð lengi og hann útskýrt fyrir honum afstöðu sína. „Forseti hlýtur að meta hvort stuðningur sé við þá ósk hjá ríkisstjórnarflokkunum og hvort líklegt sé að þingrof leiði til farsællarar niðurstöðu, bæði fyrir þjóðina og stjórnarfarið í landinu.“ Úr varð að þing var ekki rofið, Sigmundur hætti sem forsætisráðherra og ný ríkisstjórn var mynduð undir forsæti Sigurðar Inga Jóhannssonar.

Ólafur var spurður að því á blaðamannafundinum fyrir tveimur vikum hvort hann myndi hugsanlega endurskoða ákvörðun sína að gefa ekki áfram kost á sér og vildi hann ekki svara spurningunni beint.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert