Halla ekki af baki dottin

Halla Tómasdóttir.
Halla Tómasdóttir. Mynd/Aðsend

„Ég held ótrauð fram á veginn og tel að þetta snúist þá kannski með skýrari hætti um fortíð á móti framtíð, ég bauð mig alltaf fram fyrir framtíðina. Ég sé þetta í rauninni sem skýrari línur í kringum það,“ segir Halla Tómasdóttir, frumkvöðull, fjárfestir og forsetaframbjóðandi, aðspurð um hvort ákvörðun Ólafs Ragnars Grímssonar, forseta Íslands, um að gefa aftur kost á sér hafi áhrif á framboð hennar.

Hún segir telja að það sé alveg ljóst að margir telji að tuttugu ár í embætti sé gott, hvernig sem fólk telur að Ólafur Ragnar hafi staðið sig. „Ég treysti lýðræðinu til að velja úr þessum punkti nýjan tón og framtíðina,“ segir Halla.

Þetta fréttir munu líklega hleypa lífi í kosningabaráttuna. Munt þú gera einhverjar áherslubreytingar?

„Nei, ég sagði nú alltaf að ég biði mig fram óháð því hvað aðrir væru að gera. Ég brenn fyrir málefnin jafnrétti, frumkvæði, sköpun og menntamál og að setja þessi mál á oddinn sem varða framtíðina og það að ungt fólk velji að búa hér og skapa hér verðmæti. Ég mun halda áfram að tala fyrir því; að slá nýjan tón og vinna út frá öðrum gildum í okkar samfélagi,“ segir Halla.

Hún segist síður en svo vera búin að gefast upp „Það er bara jákvætt að það séu margir í framboði, það segir okkur að lýðræðið sé heilbrigt og ég held að þetta verði bara skemmtilegir og spennandi tímar og hlakka til að taka samtalið um framtíðina við Ólaf og alla aðra,“ segir Halla að lokum.

Frétt mbl.is: Sárið í samfélaginu enn til staðar

Frétt mbl.is: Halla Tómasdóttir býður sig fram 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert