Starfsmaður skattsins fékk milljónir

Tugir milljóna króna af ávinningnum af svikunum voru teknir út …
Tugir milljóna króna af ávinningnum af svikunum voru teknir út í reiðufé og gengu á milli sakborninga. mbl.is/Golli

Sjö af átta sakborningum í stórfelldu skattsvikamáli eru ákærðir fyrir peningaþvætti. Fyrrverandi starfsmaður ríkisskattstjóra, sem einnig er ákærður fyrir fjársvik í starfi, tók við hátt í tíu milljónum króna sem hann nýtti í eigin þágu. Karlmaður á fimmtugsaldri skipulagði svikin og peningaþvættið.

Fólkið, sem allt er á fimmtugs og sextugsaldri, er sakað um að hafa svikið hátt í 300 milljónir króna út úr virðisaukaskattskerfinu. Karlmaður á sextugsaldri sem þá var starfsmaður skattstjórans í Reykjavík og síðar ríkisskattstjóra nýtti aðstöðu sína til að gera félögum sem höfuðpaurinn stofnaði kleift að skila inn virðisaukaskattsskýrslum vegna byggingar húsa sem voru aldrei reist. Brotin stóðu yfir frá 2009 til 2010.

Fyrrverandi starfsmaður skattsins er ákærður fyrir fjársvik í opinberu starfi með því að hafa samþykkt skráningu og tilhæfulausar virðisaukaskattskýrslur sýndarfélaganna tveggja. Hann er einnig ákærður fyrir peningaþvætti en hann tók við 9,6 milljónum króna í reiðufé af ágóða fjársvikanna frá öðrum sakborningum og nýtti í eigin þágu og fjölskyldu sinnar.

Fengu borgað fyrir að gerast prófkúruhafar

Karlmaður á fimmtugsaldri er talinn höfuðpaur fjársvikanna og er ákærður fyrir peningaþvætti. Hann er sagður hafa fengið fjóra sakborninga í málinu, tvo karla og tvær konur, til að gerast prófkúruhafar í sýndarfélögunum tveimur gegn þóknun. Misjafnt var hversu mikið fólkið fékk greitt fyrir að gerast prófkúruhafar félaganna. Einn fékk hundrað þúsund krónur en önnur konan fékk þrjár og hálfa milljón króna fyrir það.

Fólkinu gaf höfuðpaurinn svo fyrirmæli um hvernig það ætti að taka ávinning fjársvikanna út úr banka. Tók hann við tæpum 278 milljónum króna frá fjórmenningunum frá 6. október 2009 til júlíloka 2010. Hann hafi geymt fjármunina um hríð en síðan afhent þá ótilgreindum aðila. Sjálfur hafi hann fengið átta milljónir króna af ávinningnum sem hann nýtti í eigin þágu.

Auk fjórmenninganna sem gerðust prófkúruhafar og tóku út féð er karlmaður á fimmtugsaldri ákærður fyrir peningaþvætti. Hann er sagður hafa tekið við 17 milljónum króna af ávinningnum frá öðrum sakborningi og nýtt í eigin þágu. Peningunum tók hann við í reiðufé í poka á veitingastað í Kópavogi.

Meinti höfuðpaurinn og önnur konan eru jafnframt ákærð fyrir stórfellt fíkniefnalagabrot ásamt áttunda sakborningnum í málinu. Höfuðpaurinn er sagður hafa látið hin tvö geyma rúm 11 kíló af hassi sem ætlað var til söludreifingar. Hinn maðurinn og konan eru ákærð fyrir að hafa haft efnin í vörslu sinni

Fyrri frétt mbl.is: Sviku hundruð milljónir út úr skattinum

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert