Nafn Guðrúnar verður ekki á kjörseðlinum

Guðrún Nordal prófessor og forstöðumaður Árnastofnunar.
Guðrún Nordal prófessor og forstöðumaður Árnastofnunar.

Guðrún Nordal, prófessor og forstöðumaður Árnastofnunar, mun ekki bjóða sig fram til embættis forseta Íslands í sumar, en Guðrún hefur verið orðuð við framboð og fengið margar áskorarnir í þá átt.

Í færslu á Facebook-síðu sinni segir Guðrún að hún hafi leitt hugann alvarlega að þátttöku í forsetakjörinu og fyrir því séu ýmsar ástæður. Hún hafi fengið til þess hvatningu frá mörgu fólki víða um land sem hún sé óendanlega þakklát fyrir. Sjálf hefði hún ekki ljáð máls á því að hugleiða þennan möguleika alvarlega nema af því að hún fann fyrir eigin áhuga til að „stíga fram á þeim umbrotatímum sem við lifum.“

„Íslendingar standa nú frammi fyrir margslungnum áskorunum. Atburðir liðinna vikna sýna að við eigum enn langt í land með að horfa í eigin barm, skilja og afhjúpa ýmsa þá hvimleiðu siði sem hafa verið alltof fyrirferðarmiklir í gangverki okkar smáa samfélags um langa hríð.

Forsetakosningarnar í sumar fara einnig fram á umbreytingarskeiði í heiminum öllum, þegar sjálfsmynd þjóða jafnt sem einstaklinga er t.d. í mikilli gerjun. Við erum einfaldlega – og sem betur fer - ekki sama einsleita samfélagið og áður. Ein stærsta áskorun næstu ára verður án efa að taka myndarlega á móti þeim nýju Íslendingum sem hér vilja búa. Nú reynir á gestrisni okkar og myndarskap, og þekkingu á okkar eigin sögu, og í því efni hefur forseti Íslands einstöku hlutverki að gegna sem trúnaðarmaður þjóðarinnar.

Forsetakosningarnar í júní verða örugglega spennandi. Ég vona að við tökum öll virkan þátt í umræðum í aðdraganda forsetakjörs og látum okkur varða sjónarmið frambjóðenda og þau fyrirheit er endurpeglast í orðum þeirra og framkomu. Það mun ég einnig reyna að gera þó nafn mitt verði ekki að finna á kjörseðlinum.

Ég er sannfærð um að forseti getur með framgöngu sinni stuðlað að upplýstri og vandaðri samræðu og krafan um að hann hefji sig yfir flokkadrætti og gamalkunnar átakalínur hefur aldrei verið mikilvægari en einmitt nú. Ef við ætlum okkur að fullorðnast sem fullvalda þjóð skiptir sköpum að forseti Íslands sé ekki óskilgreint sameiningartákn heldur raunverulegt sameiningarafl,“ segir í Facebook-færslu Guðrúnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert