Ógn eða tímanna tákn?

Mun þessi róbóti og hans líkar verða í framvarðasveit fréttamennsku? …
Mun þessi róbóti og hans líkar verða í framvarðasveit fréttamennsku? Bent hefur verið á að tæknin sem býður upp á sjálfvirk fréttaskrif hafi takmarkað notagildi ef ekki komi til blaðamaður með gagnrýnið fréttamat. AFP

Um nokkurt skeið hafa ýmsir stórir erlendir fjölmiðlar, auglýsingastofur og fréttaveitur notast við textagerðarforrit við fréttaskrif. Tækninni á þessu sviði fleygir sífellt fram, áður voru vangaveltur um að þessi tækni myndi ýta blaðamönnum úr starfi nokkuð áberandi en í seinni tíð hafa margir bent á að hún sé kærkomin viðbót í sífellt breytilegu starfsumhverfi blaðamannsins.

Á vef WAN-IFRA, sem eru alþjóðasamtök blaða- og fréttamiðlaútgefenda, er fjallað um sjálfvirka blaðamennsku, sem á ensku kallast automated journalism. Stundum er líka talað um róbótablaðamennsku. Þar eru ýmis dæmi nefnd til sögunnar, m.a. vefsíðan PollyVote.com. Þar eru niðurstöður skoðanakannana og ýmsar aðrar tölulegar upplýsingar færðar inn í kerfið PollyBot sem með fulltingi reiknirita eða algóritma breytir þessum upplýsingum í fréttatexta.

Á vefsíðu PollyVote segir að þetta henti við skrif frétta þar sem töluleg gögn séu fyrir hendi, eins og t.d. niðurstöður skoðanakannana og afkomutölur fyrirtækja.

Þetta þýðir þó ekki að mannshöndin komi hvergi nærri, því allt sem algóritminn gerir er vegna þess að einhver hefur forritað hann til að gera það. Þá þarf að viðhalda og uppfæra hann.

Gætu farið dýpra í hlutina

„Þessi tækni er ein af mörgum breytingum sem hafa orðið í fjölmiðlaheiminum undanfarin ár,“ segir Valgerður Anna Jóhannsdóttir, aðjunkt og umsjónarmaður MA-náms í blaða- og fréttamennsku í Háskóla Íslands. „Það er ekki orðið þannig að þetta geti leyst af hendi öll verkefni blaðamanna; t.d. er ekki hægt að taka viðtöl með þessari tækni eða útskýra af hverju eitthvað gerðist. Það hefur verið nokkuð í umræðunni að þetta gæti orðið til þess að auka þann tíma sem blaðamenn hefðu til að fara dýpra í hlutina.“

Fréttaveitan AP hefur um nokkurt skeið skrifað og birt fréttir sem skrifaðar eru á þennan sjálfvirka hátt og verið þar í fararbroddi. Þar er notað forritið Wordsmith sem er aðgengilegt öllum á netinu. Á vefsíðu Wordsmith segir að eftir að AP tók forritið í þjónustu sína hafi fjöldi frétta um ársfjórðungslega afkomu fyrirtækja margfaldast. Áður hafi um 300 slíkar fréttir verið skrifaðar á hverjum ársfjórðungi, nú séu þær um 4.300 og með þessari tækni sé t.d. hægt að skrifa 1.000 útgáfur af sömu fréttinni, sem birtar séu á mismunandi vettvangi og ætlað er að höfða til mismunandi hópa í stað þess að skrifa eina frétt sem eigi að hafa skírskotun til allra. „Nú er komið tækið sem vinnur þau verk sem blaðamönnum leiðist,“ segir í umfjölluninni. Þar er haft eftir talsmanni AP að færri villur séu núna gerðar í þessum fréttum en áður var. Engum hafi verið sagt upp vegna tilkomu forritsins, því nú gefist blaðamönnum tækifæri til að vinna ítarlegri umfjallanir.

Ekki gert í hagræðingarskyni

Fyrir tveimur vikum tilkynnti John Micklethwait, aðalritstjóri Bloomberg-fréttaveitunnar, að þar hefði verið sett á stofn teymi tíu blaðamanna sem ættu að kanna hvort og hvernig sjálfvirk blaðamennska myndi henta við fréttaskrif Bloomberg, sem fyrst og fremst eru viðskiptafréttir. Micklethwait lagði áherslu á að þetta væri ekki gert í hagræðingarskyni. „Þegar vel tekst til, býður sjálfvirk blaðamennska upp á möguleika til að gera starfið okkar miklu áhugaverðara,“ sagði hann af þessu tilefni. „Þeim tíma sem við verjum til að leita staðreynda getum við núna varið til að útskýra þær. En notagildið er takmarkað nema við stjórnvölinn sitji blaðamaður með gagnrýnið fréttamat.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert