Frumvarp um næsta áfanga í losun hafta

Bjarni Benediktsson.
Bjarni Benediktsson. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Bjarni Benediktsson, efnahags– og fjármálaráðherra, hefur lagt fram frumvarp á Alþingi um meðferð krónueigna sem eru háðar sérstökum takmörkunum, eða svokölluðum aflandskrónum.

„Frumvarp þetta er liður í hinum heildstæðu aðgerðum um losun fjármagnshafta,“ sagði Bjarni og bætti við að ríkir almannahagsmunir krefjist þess að frumvarpið nái fram að ganga. Annars verði fjármálastöðugleika landsins ógnað.

Í frumvarpinu er að finna skilgreiningu á hinum svokölluð aflandskrónueignum og eru þær útfærðar í átta liðum í annarri grein þess. Einnig er í frumvarpinu upptalning á þeim aflandskrónueignum sem af ólíkum ástæðum er nauðsynlegt að undanskilja frá frumvarpinu, að sögn Bjarna.

„Verði þetta frumvarp að lögum er áformað að Seðlabanki Íslands, haldi gjaldeyrisútboð þar sem öllum aflandskrónueigendum verður gefinn kostur á að skipta aflandskrónueignum sínum fyrir evrur,“ sagði hann. „Eigendur aflandskrónueigna sem ekki taka þátt í útboðinu munu áfram hafa umráðarétt yfir eignum sínum.“

Áformað er að gjaldeyrisútboð Seðlabanka Íslands verði í næsta mánuði. 

Í aðgerðaáætlun stjórnvalda um losun fjármagnshafta sem kynnt var í júní á síðasta ári var boðað að næsta skref yrði að leysa þann vanda sem svokallaðar aflandskrónur skapa. Aflandskrónueignir eru nú yfir 300 milljarðar króna og er líklegt talið að eigendur þeirra kysu að umbreyta þeim í gjaldeyri ef slíkt væri heimilt. Það kynni að hafa neikvæð áhrif á greiðslujöfnuð og fjármálalegan stöðugleika. Dæmi um slíkar eignir eru innstæður, fjármunir á fjárvörslureikningi, skuldabréf og víxlar.

Aflandskrónureignir verða áfram háðar sérstökum takmörkunum en megintilgangur frumvarpsins er að aðgreina aflandskrónueignir nánar en nú er gert  og með tryggilegum hætti.

Yfir 300 milljarðar í aflandskrónueignum 

Að sögn Bjarna munu næstu skref, þegar þessari áætlun stjórnvalda er lokið, snúa að heimilum og fyrirtækjum á Íslandi.

„Í tæp 8 ár hafa fjármagnshöftin heft möguleika innlendra fyrirtækja og efnahagslegt óhagræði hefur farið vaxandi með tímanum. Aflandskrónueignir eru um 319 milljarðar króna og eru þær taldar mjög kvikar, þ.e. líklegar til að leita útgöngu. Af þessum sökum er nauðsynlegt að frumvarpið verði að lögum fyrir næstu opnum fjármálamarkaða. Nái frumvarpið fram að ganga verður stigið mikilvægt skref í átt að losun fjármagnshafta.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert