„Ástandið alveg hræðilegt“

Enn þá rýkur úr þaki hússins.
Enn þá rýkur úr þaki hússins. mbl.is/Lára Halla

Einungis reykskemmdir urðu á húsakynnum Ljósvakans, sem er til húsa í Vesturvör 30b þar sem eldur kom upp í nótt. „Það var allt fullt af reyk þegar ég opnaði um fimmleytið í morgun,“ segir Jón Emilsson, annar eigandi Ljósvakans, og segir þá hafa verið heppna hvað það varðar.

„Ástandið er alveg hræðilegt þar sem eldurinn kom upp í tveimur ystu bilunum [á húsinu], þar er alveg óstarfhæft,“ segir hann. Auk altjónsins sem varð á húsakynnum Hraðbergs hafi rafmagnslagnir brunnið hjá ferðaþjónustufyrirtækinu HL Adventures. „Þar varð allt rafmagnslaust og varð mikið tjón hjá þeim. Sennilega er stálvirkið líka mjög illa farið, ef það er ekki bara ónýtt í tveimur ystu bilunum,“ segir Jón. 

Þá sé enn þá mikill reykjarmökkur á lárétta þakinu fyrir ofan Ljósvakann. „Slökkviliðið er enn að vinna þar.“

Hann segir að haft hafi verið samband við eigendur Ljósvakans um hálffjögurleytið í nótt og er hann búinn að vera á staðnum síðan. „Ég er búinn að reykræsta að mestu leyti. Við erum að vinna við töflusmíði og annað þess háttar á verkstæði þannig að reykurinn hefur ekki haft nein skemmandi áhrif á okkar starf, fyrir utan óþrifin um allt.“

Slökkvistörfum lokið í Kópavogi

Altjón í eldsvoða í nótt

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert