Fleira flóttafólk til Íslands

Reykjavík verður eitt þeirra sveitarfélaga sem tekur á móti flóttafólki …
Reykjavík verður eitt þeirra sveitarfélaga sem tekur á móti flóttafólki síðar á árinu. mbl.is/Ómar Óskarsson

Ríkisstjórnin samþykkti í morgun tillögu félags- og húsnæðismálaráðherra um móttöku flóttafólks síðar á þessu ári. Tillagan er í samræmi við niðurstöðu flóttamannanefndar um að tekið verði á móti sýrlensku flóttafólki frá Líbanon.

Þetta kemur fram í tilkynningu á vef velferðarráðuneytisins. Þar segir að nefndin leggi til að Reykjavík, Hveragerði og Árborg annist móttöku fólksins, en kostnaður við móttökuna nemur um 200 milljónum króna og er gert ráð fyrir fjármununum í fjárlögum 2016.

Tilkynningin í heild:

Ríkisstjórnin samþykkti á fundi sínum í morgun tillögu félags- og húsnæðismálaráðherra um móttöku flóttafólks síðar á þessu ári. Tillagan er í samræmi við niðurstöðu flóttamannanefndar um að líkt og síðast verði tekið á móti sýrlensku flóttafólki sem staðsett er í Líbanon. Gert er ráð fyrir að þrjú sveitarfélög; Reykjavík, Hveragerði og Árborg, annist móttöku fólksins.

Stríðsátökin í Sýrlandi hafa verið viðvarandi frá ársbyrjun 2011 með skelfilegum afleiðingum fyrir sýrlenska borgara. Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna hefur skráð yfir 4,8 milljónir Sýrlendinga sem flóttafólk og eru flestir þeirra staðsettir í nágrannaríkjum Sýrlands. Mikil spenna hefur skapast ríkjunum þar sem flóttamannastraumurinn er hvað þyngstur og óttast alþjóðasamfélagið að átökin í Sýrlandi dreifist til fleiri ríkja.

Á fundi flóttamannanefndar 6. maí sl. samþykkti flóttamannanefnd að leggja til að áfram yrði tekið á móti sýrslensku flóttafólki frá Líbanon þar sem fjöldinn er mikill og innviðir landsins til að aðstoða slíkan fjölda eru takmarkaðir.

Flóttamannanefnd leggur jafnframt til að Reykjavík, Hveragerði og Árborg verði næstu móttökusveitarfélögin. Þessi sveitarfélög höfðu frumkvæði að viðræðum um samstarf vegna móttöku á kvótaflóttafólki á haustmánuðum. Í þeim öllum eru virkar og öflugar Rauðakrossdeildir og náið samstarf er á milli Rauðakrossdeildanna í Hveragerði og Árborg. Við val á sveitarfélögum horfði flóttamannanefnd til þess áhuga sem sveitarfélögin höfðu sýnt móttöku flóttafólks og einnig atvinnuástands, félagsþjónustu, húsnæðis-, heilbrigðisþjónustu og menntunarmöguleika á svæðunum.

Reykjavíkurborg hefur áratugareynslu af móttöku flóttafólks og þar á meðal hefur borgin tekið á móti flóttafólki frá Sýrlandi en árið 2015 komu þrettán Sýrlendingar sem kvótaflóttamenn til Reykjavíkur því að þá var sérstök áhersla á flóttafólk með heilbrigðisvanda.

Hveragerði og Árborg hafa ekki tekið áður á móti kvótaflóttafólki en mat flóttamannanefndar er að sveitarfélögin séu vel í stakk búin til að taka á móti flóttafólki, þar sem öll nærþjónusta er til staðar og einnig er horft sérstaklega til þess að Vinnumálastofnun hefur aðsetur í Árborg.

Flóttamannanefnd telur mikilvægt að þekking á málefnum flóttafólks aukist í sveitarfélögunum og því er lagt til að þegar tekið er á móti flóttafólki þá komi að því bæði sveitarfélög sem hafa þekkingu á móttökunni, sem geti þá miðlað af reynslu sinni, sem og sveitarfélög sem eru að taka á móti fólki í fyrsta sinn. Það er því talinn mikill styrkur að Reykjavík taki á móti hópi núna ásamt tveimur nýjum sveitarfélögum.

Kostnaður við móttökuna nemur um 200 m.kr. og er gert ráð fyrir fjármagninu í fjárlögum ársins 2016.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert