Yfirklappstýrur Haukanna

Frá vinstri: Didda, Valgerður og Áslaug.
Frá vinstri: Didda, Valgerður og Áslaug. mbl.is/Styrmir Kári

Fjörugur kvennahópur hefur vakið talsverða athygli á leikjum karlaliðs Hauka, nýkrýndra Íslandsmeistara í handbolta. Þær mæta á alla heimaleiki og fjölmarga útileiki liðsins og eiga sín föstu sæti á heimavelli. Sjálfar segjast þær ekki vera með mikil læti, raddstyrkurinn bjóði ekki upp á það, en þær bæti það upp með gleði og áhuga. „Svona viðhöldum við lífsgleðinni,“ segir Kristín Þorleifsdóttir, 91 árs, sem er kölluð Didda.

Hinar eru Valgerður Sigurðardóttir, 88 ára, Áslaug Guðmundsdóttir, 86 ára, og Kristín Árnadóttir, 83 ára, en sú síðastnefnda var vant við látin þegar blaðamaður Morgunblaðsins hitti þessar kátu konur að máli í gær. „Þetta er það skemmtilegasta sem við gerum,“ segja þær í kór, en handboltinn er reyndar ekki eina tenging vinkvennahópsins við Hauka, því þær hitta jafnaldra sína reglulega á vegum félagsins og spila félagsvist.

Allar æfðu þær handbolta á yngri árum, Didda var reyndar sú eina sem æfði með Haukum,Valgerður æfði með ÍR og Áslaug með Val.

„Einu sinni fórum við á Haukaleik á Valsvellinum. Ég gleymdi mér í gömlum minningum og var líklega eitthvað dreymin á svipinn. Ég hrökk við þegar þær sögðu stríðnar: Með hverjum skyldi hún halda í dag? Eins og ég myndi halda með einhverjum á móti Haukum,“ segir Áslaug.

Þær höfðu stundað Haukaleikina um skeið áður en leiðir þeirra lágu saman og allar tengjast félaginu með einum eða öðrum hætti, gjarnan í gegnum börn eða barnabörn. „Við byrjuðum síðan að fara saman á leiki þegar við fluttum í sama húsið,“ segir Valgerður.

Þær segjast hafa hætt að fylgjast með handbolta og flestum öðrum íþróttum þegar þær giftu sig og eignuðust börn. „Það var bara ekki tími til þess,“ segir Valgerður. Þegar börnin uxu úr grasi og fóru að æfa íþróttir, og síðar barnabörnin, fóru þær aftur að fylgjast með.

Fólk á öllum aldri

En það er fleira en íþróttaáhuginn sem dregur þær á leikina. Þar hitta þær vini og kunningja, börn og barnabörn og segja ómetanlegt að þar komi saman fólk á öllum aldri. „Það er allt of mikið gert af því að skipta fólki upp eftir aldri. Það yngir mann upp að vera innan um fjörugt og ungt fólk,“ segir Didda. Valgerður tekur undir það. „Það er alltaf tekið svo vel á móti okkur, eldgömlu unglingunum,“ segir hún og hinar skella dátt upp úr.

Þær segjast fara á alla heimaleiki karlaliðsins og þónokkra hjá kvennaliðinu. „Við erum ekki alveg nógu duglegar að fara á stelpnaleikina,“ segir Áslaug. „Við bætum úr því næsta vetur,“ segir Valgerður.

Samstaða, samheldni og traust

Blaðamanni hafði borist til eyrna að í kringum þær væri mikið líf og fjör á leikjum og að þær létu gjarnan hátt í sér heyra. „Uss, það heyrist aldrei neitt í okkur,“ segir Áslaug og uppsker við það hlátrasköll vinkvenna sinna. „Hljóðdósin er orðin ansi rám,“ segir Valgerður. „Við klöppum og stöppum,“ viðurkennir Didda og Áslaug bætir við að hún hafi einu sinni klappað svo mikið að hún blánaði á höndum.

„Ætti maður ekki að vera þakklátur fyrir að vera 91 árs og geta enn farið á leiki?“ spyr Didda. „Við höldum bara áfram að fara á þá á meðan við göngum,“ segir Áslaug.

Þær eru sannfærðar um að ein skýringin á einstakri velgengni Haukaliðsins undanfarin ár sé sá stuðningur sem liðið fær frá stuðningsmönnum sínum. „Maður finnur svo vel samstöðuna, samheldnina og traustið þegar maður kemur á leikina,“ segir Valgerður. „Það skilar sér út á völlinn.“

Vinkonurnar segja það ekki fjarri lagi að þær finni fyrir fráhvarfseinkennum núna, þegar tímabilinu er lokið og Íslandsmeistaratitillinn í höfn. „Maður getur þá kannski leyft sér að verða veikur,“ segir Áslaug hlæjandi og bætir við að þær leyfi sér ekki að finna fyrir lasleika þá daga sem leikir eru. „Annars spáum við aldrei í hvað við erum gamlar,“ bætir hún við. „Við gerum yfirleitt það sem okkur langar til.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert