Ekki tímabært að ákveða kjördag

Elsa Lára Arnardóttir, þingmaður Framsóknarflokksins.
Elsa Lára Arnardóttir, þingmaður Framsóknarflokksins. mbl.is/Ómar Óskarsson

Elsa Lára Arnardóttir, þingmaður Framsóknarflokksins, telur ekki tímabært að ákveða kjördag fyrir næstu þingkosningar. Þetta kom fram í máli hennar á Alþingi í dag.

Hún sagði mikilvægt að fyrst yrði litið til þeirra verkefna sem ríkisstjórnin var kosin til að vinna að, svo sem aðgerða í húsnæðismálum, breytinga á verðtryggingunni og endurbóta á almannatryggingakerfinu, svo eitthvað sé nefnt.

„Þegar þessum verkefnum er lokið er tímabært að ganga til kosninga, hvort sem það er í haust eða síðar,“ sagði Elsa Lára.

Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, hefur tekið af öll tvímæli um það að kosið verði til Alþingis næsta haust. Ekki virðist þó vera einhugur um það innan ríkisstjórnarflokkanna, en Silja Dögg Gunnarsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins, sagði til að mynda á þingi í gær að það hefði verið vanhugsað að boða til kosninga í haust.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert