Höfðar mál gegn Kópavogsbæ

Snæfríður Ingadóttir með Ragnhildi móður sinni. Mál hennar gegn Kópavogsbæ …
Snæfríður Ingadóttir með Ragnhildi móður sinni. Mál hennar gegn Kópavogsbæ verður tekið fyrir í Héraðsdómi Reykjaness á morgun. mbl.is/Golli

Snæfríður Ingadóttir er 14 ára Kópavogsstúlka sem fæddist með sjaldgæfan augnsjúkdóm, achromatopsia, og er skilgreind lögblind. Á morgun tekur Héraðsdómur Reykjaness fyrir mál hennar gegn Kópavogsbæ, sem hefur synjað Snæfríði um þá ósk að fá sams konar leigubílaþjónustu og nágrannasveitarfélögin bjóða upp á.

„Við upplifum sterkt að það vantar þennan mannlega eiginleika hjá Kópavogsbæ – að skoða hvert tilfelli fyrir sig,“ segir Ragnhildur Bjarkadóttir, móðir Snæfríðar, sem Kópavogsbær býður að ferðast með ferðaþjónustu fatlaðra í bænum. Snæfríður er með 10% sjón, er mjög ljósfælin og finnur fyrir miklum sársauka í mikilli birtu. Hún getur því ekki gengið í skólann eða nýtt sér almenningssamgöngur þar sem hún sér t.d. ekki leiðarkerfið, eða númerið á vagninum.

„Hún þarf hjálp við að komast á milli staða og það sem hefur verið í boði er rúta á vegum bæjarins þar sem allir fatlaðir eru settir undir sama hatt.“ Rútunni þarf að gefa 40 mínútur til að komast á milli staða og hana þarf að panta á vinnutíma með fyrirvara. „Þetta er þjónusta sem hún getur ekki nýtt sér. Að vera sjónskert í aðstöðu með átta öðrum einstaklingum og bílstjóra er nokkuð sem henni finnst henni óþægilegt,“ segir Ragnhildur og bendir á að Snæfríður eigi oft erfitt með að labba frá skóladyrunum að bílnum. „Ef við gefum okkur að það séu átta hressir krakkar í bílnum þá er hæpið að bílstjórinn fari út úr bílnum og sæki hana.“

Félagslega einangrandi

Þá henti sólarhringsfyrirvari á akstursþjónustu illa fyrir unglingsstúlku sem sé að reyna að eiga eðlilegt félagslíf. „Hún getur ekki ákveðið með sólarhringsfyrirvara hvenær hún ætlar að fara úr partíi eða hvenær hún ætlar að mæta á skólaballið sitt.“ Þá eiga vinkonurnar til að ákveða með klukkutíma fyrirvara að mæta í félagsmiðstöðina og þá sé félagslega einangrandi fyrir Snæfríði að geta ekki hringt í leigubílinn til að komast á milli staða.

„Það er ekki hægt að setja fötlun bara í eitthvað eyðublað og einhvern farveg án þess að skoða líf viðkomandi,“ segir Ragnhildur og kveður þjónustu Kópavogsbæjar ekki vera sniðna að þörfum Snæfríðar. „Bærinn hefur sagt okkur að þetta sé bara þeirra stefna og þeir vilji ekki vera að mismuna eftir fötlun þannig að sumir fái leigubílaþjónustu og aðrir ekki. Það hljómar hins vegar mjög skringilega, því það að vera fatlaður er svo ótrúlega víðtækt hugtak. Það er ekki hægt að veita sömu þjónustu barni sem er í hjólastól, með einhverfu eða er sjónskert.“

Snæfríður fór sjálf á fund með Ármanni Kr. Ólafssyni, bæjarstjóra Kópavogs, fyrir jól til að reyna að sannfæra hann um veita sér sjálfstæði í ferðum með leigubílaþjónustu. „Hún spurði hann beint út hvort hann gæti hugsað sér að plana allt sitt félagslíf þannig að hann yrði að skipuleggja allt með sólarhringsfyrirvara og hann gat ekki svarað því, en lofaði að ráðfæra sig við lögfræðinga Kópavogsbæjar og vera svo í sambandi. Síðan hefur ekki heyrst í honum,“ segir Ragnhildur og spyr: „Hvernig er það fyrir 14 ára gamla stúlku?“

„Við upplifum sterkt að það vantar þennan mannlega eiginleika hjá …
„Við upplifum sterkt að það vantar þennan mannlega eiginleika hjá Kópavogsbæ – að skoða hvert tilfelli fyrir sig,“ segir Ragnhildur Bjarkadóttir, móðir Snæfríðar. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Upplifir höfnun frá sveitarfélaginu

„Hún upplifir mikla höfnun frá sveitarfélaginu sínu og það er erfitt fyrir unga stúlku sem er að berjast alla dag. Hún er ekki í skólaumhverfi sem er sniðið að hennar þörfum þannig að þegar hún kemur heim þá byrjar hún yfirleitt á því að loka sig af inni í herbergi í myrkri í klukkutíma til að ná áttum. Að bæta ofan á þetta rútuferð sem er kannski 40 mínútur er mikið álag á unga stúlku sem er að reyna  að standa sig.“

Ragnhildur segir fjölskylduna þegar hafa séð hvað leigubílaþjónustan hafi góð áhrif á Snæfríði. „Við höfum samanburðinn, af því að Blindrafélagið ákvað að styrkja Snæfríði um leigubílaþjónustuna á meðan dómsmálið er í gangi. Hún fékk leigubílaþjónustuna núna í haust og gjörbreyttist við það. Hún fór allt í einu að tala hærra, brosti meira og varð virkari í félagslífinu. Ég fékk allt í einu hamingjusaman ungling,“ segir Ragnhildur og bendir á að Snæfríður sé sjálfstæð stúlka sem þrái að fara sínar eigin ferðir, en sem fái ekki bílpróf eftir tvö ár eins og vinir hennar.

Kvíðir dómsmálinu

Mál Snæfríðar verður tekið fyrir hjá Héraðsdómi Reykjaness í fyrramálið og segir Ragnhildur það valda dóttur sinni áhyggjum. „Henni líður mjög illa. Hlutir á borð við hvort það verði mikil birta í dómsalnum valda henni kvíða og eins kvíðir hún því að þurfa að hlusta á lögmann Kópavogsbæjar tala um að hún hafi sérþarfir umfram aðra fatlaða einstaklinga.

Henni finnst erfitt að hún sé að stöðugt að reyna að sanna fyrir samfélagi sínu að hún sé venjuleg – að hún geti staðið sig í öllu, en það séu samt allir að einblína á fötlun hennar, í stað þess að beina athyglinni að því að hún hafi verið að klára framhaldsskólaáfanga og hafi fengið þar 9,5 í einkunn.

Síðan erum við foreldrarnir náttúrulega miður okkar að leggja þetta á dóttur okkar. Að hinu megin við hæðina þar sem við búum gæti hún fengið leigubílaþjónustu. Hún segir líka við mig: Mamma, ég þjáist af samviskubiti yfir að ef við töpum málinu, þá þurfir þú að flytja annað með öll börnin þín.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert