Framlög til framhaldsskóla dugi ekki til

Skólameistarar segja brýnt að farið verði í endurskoðun á reiknilíkaninu.
Skólameistarar segja brýnt að farið verði í endurskoðun á reiknilíkaninu. mbl.is/Ernir

„Því miður þá dugar þetta fjármagn ekki alveg til. Það vantar talsvert upp á til þess að leysa þennan greiðsluvanda,“ segir Hjalti Jón Sveinsson, skólameistari Kvennaskólans í Reykjavík, eins af sjö framhaldsskólum í greiðsluerfiðleikum sem hafa fengið greidd framlög sem ætlað er að mæta vandanum.

Framlögin taka mið af rekstraráætlun skólanna og eru greidd út þrátt fyrir uppsafnaða skuld við ríkissjóð. Framlögin nema alls tæpum 100 milljónum króna, en auk Kvennaskólans fengu Menntaskólinn á Akureyri, Flensborgarskóli, Fjöl­brauta­skóli Vest­ur­lands, Fjöl­brauta­skóli Suður­lands, Verk­mennta­skól­inn á Ak­ur­eyri og Fjöl­brauta­skóli Snæ­fell­inga greidd framlög.

Hjalti Jón segir að framlögin séu vissulega skref í rétta átt, en betur megi ef duga skal. „Við erum að reyna að greiða skuldir okkar við birgja og þetta er vissulega skref í rétta átt til þess, en hefði mátt vera meira,“ segir hann og bætir við að staðan sé slæm hjá öllum framhaldsskólum. „Ef skólarnir eru ekki nú þegar í skuld við ríkissjóð þá stefna þeir hraðbyr í það. Ástandið er að versna.“

Hjalti Jón Sveinsson, skólameistari Kvennaskólans.
Hjalti Jón Sveinsson, skólameistari Kvennaskólans. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Aðalvandi framhaldsskólanna óleystur

Þá segir hann aðalvanda framhaldsskólanna óleystan. „Það er að endurskoða fjármögnun skólanna og endurskoða reiknilíkanið eins og talað hefur verið um,“ segir hann. „Það er enn þá óleyst verkefni sem við þurfum að einhenda okkur í að ljúka. Það hefur líka verið minnt á að einn af grundvöllum kjarasamnings ríkisins við félag framhaldsskólakennara var að þetta skyldi gert.“

Svokölluð launastika ræður því hvernig fjármunum er úthlutað til framhaldsskólanna, en í pistli í Fréttablaðinu í gær skrifaði Guðríður Arnardóttir, formaður Félags framhaldsskólakennara, að hún endurspegli ekki launakostnað og hafi í raun verið notuð til þess að þrengja að rekstri framhaldsskólanna. Framlög til skólanna hafi verið keyrð niður án þess að málefnaleg rök liggi þar til grundvallar sem réttlæti slíkt. Þá kallaði hún eftir því við menntamálaráðherra að launastikan yrði færð í rétt horf.

Menntaskólinn á Akureyri.
Menntaskólinn á Akureyri. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Góð viðleitni en dugar skammt

Jón Már Héðinsson, skólameistari Menntaskólans á Akureyri, tekur í sama streng. „Samkvæmt lögum um framhaldsskóla og reglugerð um reiknilíkan þá á ekki að vera með reiknilíkan eins og gert er núna; reiknilíkanið á að taka mið af meðallaunum í hverjum skóla fyrir sig og það er það sem þarf að ráðast í.“

Þá segir hann að þrátt fyrir góða viðleitni dugi fjármagnið ekki til. „Skuldin okkar er 39 milljónir við ríkissjóð og 12 milljónir upp í það til að jafna stöðu skólans er vissulega leiðrétting, en það er ljóst að þetta fer bara í sama farið á næsta ári,“ segir hann.

Jón Már Héðinsson, skólameistari Menntaskólans á Akureyri.
Jón Már Héðinsson, skólameistari Menntaskólans á Akureyri. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Segir Jón Már að skuld skólans við ríkissjóð hafi hækkað árið 2012 þegar farið var að nota reiknilíkanið með tilbúnu launastikunni, sem sé lægri en kjarasamningsbundin laun. „Á þeim tíma vantar 24% upp á það að launaframlög frá ríkinu séu í samræmi við kjarasamninga og þá hafa skólarnir auðvitað ekki tök á því að standa við fjárlög og á þann hátt er búin til skuld þeirra við ríkissjóð. Árlega höfum við ekki fengið rekstrarfé fyrr en fjársýslan hefur fengið þessa skuld jafnaða svo við höfum ekki verið að fá rekstrarfé með eðlilegum hætti frá árinu 2012,“ segir hann. „Þetta er búið að vera viðvarandi í langan tíma hjá okkur en innan hvers árs höfum við nánast verið að reka skólann hallalaust og höfum lítið verið að bæta við þessa skuld.“

Í tilkynningu frá fjármálaráðuneytinu í gær sagði að engin mistök hafi verið gerð hjá Fjár­sýslu rík­is­ins vegna greiðslna á rekstr­ar­fé til fram­halds­skól­anna. „Fjár­sýsl­an þarf sér­staka heim­ild fjár­mála- og efna­hags­ráðuneyt­is til að greiða rekstr­ar­fé um­fram heim­ild­ir hvers tíma­bils og er fátítt að slík­ar heim­ild­ir séu gefn­ar“.

Frétt mbl.is: Framhaldsskólar í vanda fá aukið fé

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert