Næsta verk að styrkja innviðina

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra á Alþingi í kvöld.
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra á Alþingi í kvöld. mbl.is/Styrmir Kari

Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, segir að eitt af verkefnunum fram undan sé að sækja fram af fullum krafti í að styrkja innviði landsins. Það hafi dregið úr fjárfestingum og opinberum framkvæmdum ýmiss konar en nú sé lag að bæta í á nýjan leik.

Í eldhúsdagsræðu sinni á Alþingi í kvöld fór Bjarni um víðan völl en fjallaði sérstaklega um þann efnahagslega árangur sem sitjandi ríkisstjórn hefði náð á undanförnum árum. Skuldir heimilanna væru til að mynda í lægstu gildum í fjöldamörg ár. Það þýddi þó að sjálfsögðu ekki að til væru þeir sem ekki næðu endum saman. Eina sem þetta segði væri að fleiri væru í betri stöðu nú en áður.

Enn væri mikið verk fyrir höndum að bæta stöðu þeirra sem hefðu ekki nóg til að ná markmiðum sínum í lífinu.

Bjarni nefndi að ört batnandi staða ríkissjóðs hlyti að veita okkur sérstaka ánægju. Ríkissjóður hefði verið rekinn hallalaus og skuldir ríkisins farið hratt lækkandi. Þær færu á komandi árum niður í þau skuldaviðmið sem þingið hefði samþykkt og yrðu þá algjörlega samkeppnishæf á alþjóðlegum vettvangi.

Það væri merki um að okkur hefði miðað hratt fram að vel hefði gengið við að vinna úr fjárhagslegum þrengingum, bæði fyrir ríkissjóð, heimilin og atvinnulífið.

Hann taldi ástæðu til að benda á að mikill vöxtur í kaupmætti launa að undanförnu væri ekki eitthvað sem „við gætum almennt rætt um hér á þinginu sem sjálfsagðan hlut.“ Ríkisstjórnin hefði tekist að bæta stöðu heimilanna það ört að ástæða væri til að vekja á því athygli að jafnmikill kaupmáttur launa væri ekki hægt að taka út ár eftir ár.

Til þess þyrfti framleiðnin að aukast enn meira.

„Kannski erum við of sjálfhverf?“

Undir lok ræðunnar velti Bjarni þeirru spurningu upp hvort þingmenn mættu ekki oftar leggja við hlustir. Ekki gefa sér það fyrirfram hvað það væri sem fólk æskti þess að þingmenn tækju á, heldur raunverulega að spyrja sig hvað það væri sem þjóðin kallaði eftir að þingmenn sinntu á þinginu.

Hann rifjaði upp að Jean-Claude Juncker, forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, hefði sagt íbúa Evrópu hafa misst trúna á Evrópuhugsjónina. Það hefði meðal annars verið vegna þess hversu mikið Evrópusambandið hefur skipt sér af daglegu lífi borgaranna.

Það ætti kannski líka við á þinginu. „Kannski erum við of sjálfhverf?“ Í það minnsta væri ekki úr vegi að staldra við og spyrja hvort við þingmenn værum að hlusta nægilega vel á.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert