Hálf milljón ferðamanna frá áramótum

Fjöldi erlendra ferðamanna á Íslandi heldur áfram að aukast.
Fjöldi erlendra ferðamanna á Íslandi heldur áfram að aukast. mbl.is/Ómar Óskarsson

Heildarfjöldi erlendra ferðamanna til Íslands frá áramótum er um 513 þúsund. Þetta eru um 35,2% fleiri ferðamenn miðað við fjöldann á tímabilinu janúar til maí árið 2015.

Um 124 þúsund erlendir ferðamenn fóru frá landinu í maí síðastliðnum samkvæmt talningum Ferðamálastofu í Flugstöð Leifs Eiríkssonar eða 33 þúsund fleiri en í maí á síðasta ári. Aukningin nemur 36,5% milli ára.

Ferðamönnum heldur því áfram að fjölga milli ára en aukningin var 23,6% í janúar, 42,9% í febrúar, 38,1% í mars og 32,5% í apríl, samkvæmt vefsíðu Ferðamálastofu.

Um 77% ferðamanna í maí voru af tíu þjóðernum. Bandaríkjamenn voru fjölmennastir eða 26,2% af heildarfjölda en næstir komu Bretar, 12,8%.

Á eftir þeim fylgdu Þjóðverjar (7,8%), Kanadamenn (6,0%), Norðmenn (5,2%), Svíar (4,9%), Frakkar (4,5%), Danir (3,6%), Hollendingar (2,8%) og Pólverjar (2,7%).

Flugstöð Leifs Eiríkssonar.
Flugstöð Leifs Eiríkssonar. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Nífalt fleiri frá N-Ameríku

Þegar maímánuður er skoðaður hefur mikil aukning orðið á fjölda ferðamanna frá árinu 2010. Fjöldi N-Ameríkana hefur nífaldast,  fjöldi Breta fimmfaldast, fjöldi ferðamanna frá Mið- og Suður-Evrópu meira en þrefaldast og fjöldi Norðurlandabúa hefur meira en tvöfaldast.

Um 47 þúsund Íslendingar fóru utan í maí síðastliðnum eða 5.300 fleiri en á sama tíma í fyrra. Um er að ræða 12,8% fleiri brottfarir en í maí 2015.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka