Svaf samtals í 115 mínútur

Skúli Mogensen startaði keppninni á fimmtudag.
Skúli Mogensen startaði keppninni á fimmtudag. mbl.is/Kristinn Magnússon

Hafliði Richard Jónsson kom í mark í WOW Cyclothon rétt fyrir hádegi í dag, síðastur keppenda í einstaklingskeppninni. Alls hófu sjö manns leik en fjórir hættu keppninni.

Samstarfsfélagar hans tóku á móti honum við Hvolsvöll og hjóluðu með honum síðustu metrana og hvöttu hann áfram. Hafliði svaf samtals í 115 mínútur þegar hann hjólaði hringinn en flautað var af stað klukkan 17 sl. fimmtudag.

Var hann því úrvinda þegar hann kom í mark og lá „steinsofandi í hálftómu baðkari“ að sögn Eðalreinar Magdalenu Sæmundsdóttur, eiginkonu Hafliða. Eðalrein, eða Ella Magga eins og hún er kölluð, og Hafliði giftu sig síðasta sunnudag og hafa verið grínast með að hringferðin hafi verið brúðkaupsferð þeirra hjóna.

„Við ákváðum þetta fyrir ári,“ segir Ella Magga um hringferðina en Hafliði þurfti að hætta keppni í fyrra eftir um 1.000 km af heilsufarsástæðum. „En við ákváðum að gifta okkur fyrir tveimur vikum þannig að það var ekkert hægt að láta það skemma þetta. Þetta var svona fjölskyldubrúðkaupsferð, ægilega gaman,“ segir Ella Magga mjög létt í bragði. 

Ella Magga fylgdi Hafliða á eftir ásamt tveimur dætrum hennar og föður Hafliða. „Þetta tók aðeins lengri tíma en hann ætlaði en það var ákveðið að klára þetta,“ segir Ella sem var mjög ánægð með viðtökur samstarfsfólks Hafliða hjá VSÓ-ráðgjöf. „Þau skipulögðu dagskrá þegar við komum, voru með blóm og verðlaunapall,“ segir hún en búið var að taka niður endamarkið og verðlaunapallinn. „En þau frá WOW air komu með kampavín handa honum,“ bætir Ella við.

Spurð hvort stefnan sé sett á að endurtaka leikinn að ári kveður Ella Magga strax „nei, nei nei“ en bætir því við að ýmsar keppnir standi til boða erlendis. Og er stefnan sett á keppni úti?

„Nei, nei, nei,“ segir hún og hlær en bætir við að slíkt verði skoðað þegar allir séu búnir að jafna sig eftir keyrslu síðustu daga.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert