Hlupu úr kirkjunni til að horfa á EM

Hildur Eir festir nelliku á kyrtil sonarins, Haraldar Bolla.
Hildur Eir festir nelliku á kyrtil sonarins, Haraldar Bolla. Ljósmynd/Helga Kvam/Völundur

Spenntir aðdáendur íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu hlupu út úr Akureyrarkirkju á laugardaginn að fermingarathöfn lokinni, á undan prestinum og fermingarbörnunum. Leikur Íslands og Ungverjalands stóð yfir og vildu þeir gjarnan sjá lokamínúturnar. Foreldrar fermingarbarnanna tveggja höfðu verið hvattir til að færa ferminguna vegna leiksins sem hófst kl. 16.

Þá hafa hjón sem munu endurnýja hjúskaparheitin á Akureyri í dag ákveðið að fresta athöfninni um einn og hálfan tíma vegna leiks Íslands og Austurríkis sem hefst kl. 16. 

Allir öskruðu í kirkjunni

„Ég var að ferma son minn á laugardaginn. Ég var búin að velja þennan dag fyrir ári síðan og festa athöfnina kl. 16. Svo þegar nær dró kom í ljós að Ísland var að keppa á sama tíma. Þá urðu menn í fjölskyldunni, menn á besta aldri, ekki sáttir og spurðu hvort ég vildi ekki færa þetta til. Ég sagði að það gæti orðið erfitt,“ segir Hildur Eir Bolladóttir, prestur í Akureyrarkirkju og móðir annars fermingarbarnsins, í samtali við mbl.is.

„Þá held ég að æðri máttarvöld hafi gripið inn í. Í ljós kom að kirkjan var tvíbókuð, það var líka búið að bóka skírn kl. 16 í kirkjunni. Það þýddi að ég bakkaði með tímann kl. 16 og allir gestirnir í fermingunni fóru í veislusalinn fyrir ferminguna og horfðu á leikinn á stórum skjá,“ segir Hildur Eir.

Fermingarbörnin Haraldur Bolli og Matthildur Þóra. Horft var á leikinn …
Fermingarbörnin Haraldur Bolli og Matthildur Þóra. Horft var á leikinn í veislusalnum þar til fermingarathöfnin hófst. Ljósmynd/Helga Kvam/Völundur

Gestirnir náðu ekki að horfa á allan leikinn en góð stemmning var í salnum á meðan horft var. „Ég hef aldrei séð jafnpeppaðan hóp ganga til athafnar eins og þá,“ segir Hildur Eir. Bróðir hennar, sem einnig er prestur, sá um ferminguna þennan dag. „Í miðri athöfn tilkynnti hann um mark Íslands og þá öskruðu allir í kirkjunni. Síðan héldu þau áfram með trúarjátninguna.“

Hér má sjá mark Gylfa Þórs í leiknum á laugardaginn. Hann skoraði úr vítaspyrnu í fyrri hálfleik og kom Íslandi yfir. 

„Fermingarbörnin sátu í hvítu kyrtlunum og öskruðu líka þannig að nellikurnar sem þau voru með í barminum hrukku af. Í lok athafnarinnar sagði presturinn að við skyldum ekki tefja of lengi og hann vildi leyfa fólki að drífa sig til að klára leikinni. Fólk tók því svo bókstaflega að sumir hlupu út á undan prestinum og fermingarbörnunum sem voru að ganga út úr kirkjunni,“ segir Hildur Eir.

Það var mikil spenna í veislusalnum yfir leik Íslands og …
Það var mikil spenna í veislusalnum yfir leik Íslands og Ungverjalands. Ljósmynd/Helga Kvam/Völundur.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert