Misræmi í einkunnagjöf grunnskóla

Verslunarskóli Íslands.
Verslunarskóli Íslands. mbl.is/ Árni Sæberg

„Ég hef ekki gert neitt annað núna síðustu tvo daga en að svara tölvupóstum frá foreldrum sem eru ósáttir,“ segir Ingi Ólafsson, skólastjóri Verzlunarskóla Íslands. Versló þurfti að synja alls um 270 nemendum inngöngu næsta skólaár, þar af rúmlega 100 sem settu skólann í sitt fyrsta val. Skólinn meðhöndlar umsóknir óháð því hvort nemendur setji hann í fyrsta eða annað val að sögn Inga.

„Það í sjálfu sér var ekkert vandamál varðandi inntökuna, þetta gekk mjög vel,“ segir Ingi spurður hvernig innritunarferlið hafi gengið eftir að nýtt námsmatskerfi í grunnskólum tók gildi. „En við vitum ekki frekar en aðrir hvernig samræmið er í einkunnagjöf einstakra skóla,“ segir Ingi.

Ingi segir að nýja kerfið, sem byggi á bókstöfum, hafi í raun breytt litlu varðandi inntökuferlið sem slíkt en aftur á móti virðist vera nokkuð ósamræmi í einkunnagjöf milli skóla. „Það er greinilegt samt að það er svolítið mismunandi milli skóla, því að við sjáum það að það eru ákveðnir skólar sem koma hlutfallslega fleiri nemendum að hjá okkur núna heldur en þeir hafa gert undanfarið.“

Ingi skynjar aukinn pirring meðal foreldra vegna nýja bókstafakerfisins sem innleitt var á síðasta ári. „Maður hefur það á tilfinningunni að foreldrar treysti ekki öllum grunnskólum og segi að þessi skóli sé mjög strangur á meðan hinn skólinn sé þetta og svo framvegis,“ segir Ingi.

Í ár bauðst nemendum að senda inn önnur fylgigögn umsókn sinni til stuðnings, bæði í gegnum umsóknarkerfið Innu og beint í gegnum vefsíðu Verzlunarskólans. Ingi telur þó að þetta sé ekki komið til að vera. „Þetta hjálpaði almennt ekki því að þetta eru bara frábærir nemendur og þetta er bara ótrúlegt hvað þau hafa verið að gera í tómstundum og félagslífi og þess háttar,“ segir Ingi. „Það var í örfáum tilvikum sem við þurftum að gera upp á milli nemenda þá var reynt að skoða þetta, annars var líka gripið til þess að velja bara handahófskennt.“

Ingi telur þó að þegar allir hafi lært almennilega á nýja kerfið og unnið með það þá verði það til hins betra og jafnvel sanngjarnara en gamla kerfið. 

Aldrei fleiri komist inn í fyrsta val

Gylfi Jón Gylfason, sviðsstjóri matssviðs hjá Menntamálastofnun, segir dreifingu einkunna nokkurn veginn eins og við var að búast og nýja kerfið virðist ekki hafa haft áhrif á innritun í framhaldsskóla nema til góðs. „Ég held að við höfum fengið færri umkvartanir en venjulega vegna innritunar í skóla,“ segir Gylfi.

Umkvartanir sem til hans hafa borist eru flestar í tilfellum þar sem nemandi hefur sótt um skóla sem gerir kröfur til einkunna sem nemandi stendur ekki undir, nemandi hafi því ekki átt raunhæfan möguleika á að komast inn. „Í þessum vinsælu skólum, þá eru náttúrlega það margar umsóknir um laus pláss að þeir geta leyft sér að standa dálítið stíft á þeim inntökuskilyrðum sem þeir setja,“ segir Gylfi.

„Sitt sýnist hverjum þegar það eru breytingar en heilt yfir þá heyrist mér að fólk er almennt mjög ánægt með þessa áherslu að horfa á hæfni nemenda,“ segir Gylfi. Aftur á móti séu grunnskólarnir mislangt á veg komnir með að innleiða kerfið og sýna þurfi því skilning að það getur tekið tíma að aðlagast breytingum. 

Með nýja kerfinu er ætlunin að leggja aukna áherslu á hæfni nemenda. Menntamálastofnun hélt kynningarfundi um land allt þegar kerfið var innleitt, þar sem kennurum og skólastjórnendum bauðst fræðsla um hvernig skildi haga sér við nýtt kerfi við einkunnagjöf. 

„Mér sýnist að grunnskólarnir hafi bara verið að gera þetta vel og framhaldsskólarnir líka í sinni innritun. Hlutföllin á dreifingunni í einkunnunum var eins og við var að búast, það hafa aldrei fleiri fengið inn í sitt fyrsta vali og það hafa komið til okkar tiltölulega fáar kvartanir,“ segir Gylfi að lokum, „fókus á hæfni er náttúrulega bara 21. aldar nálgun.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert