Þegar kominn biðlisti til Frakklands

Liðsmenn íslenska liðsins fögnuðu innilega með áhorfendum eftir sigurleikinn í …
Liðsmenn íslenska liðsins fögnuðu innilega með áhorfendum eftir sigurleikinn í París í Frakklandi í gær. AFP

Símalínur hafa verið rauðglóandi hjá ferðaskrifstofunni Vita í morgun og biðu fjölmargir tölvupóstar starfsfólksins þegar það kom til vinnu. Íslendingar í Frakklandi vilja vera áfram og fylgjast með leik Íslands og Englands á mánudaginn og aðrir vilja ólmir komast út.

Sala er hafin í ferð á vegum Heimsferða, Icelandair kannar hvort hægt sé að bæta við auka vél; sem og WOW air. 

„Það er kominn ofboðslegur fjöldi af fyrirspurnum, síminn logar. Það er verið að vinna í því að setja upp aukaferð og koma öllum fyrir sem vilja vera áfram,“ segir Steinþóra Sigurðardóttir, sölustjóri Vita, í samtali við mbl.is. Mikið álag hefur verið á íþróttadeild fyrirtækisins í morgun og hafa starfsmenn úr öðrum deildum komið til til aðstoðar.

Hér má lesa um miðasöluna á leikinn

Eins og staðan er núna liggur ekki fyrir hvort fyrirtækinu takist að útvega auka flugvél til að flytja áhugasama út en þegar er kominn biðlisti, gangi það upp.

„Ef þetta dettur inn, þá erum við komin með fullt af fólki á skrá. Þar gildir bara fyrstur kemur fyrstur fær. Við bendum fólki bara á að senda póst á þetta netfang og ef þetta gengur upp verður hringt í þá sem sendu,“ segir hún og bætir við að margir hafi sent fyrirspurnir í gærkvöldi og í nótt. Um er að ræða netfangið tonsport@vita.is.

Ari Skúlason, leikmaður íslenska liðsins, faðmar son sinn eftir leikinn …
Ari Skúlason, leikmaður íslenska liðsins, faðmar son sinn eftir leikinn í gær og fagnar með áhorfendum. AFP

Bókanir þegar farnar að berast

Heimsferðir eru þessa stundina að undirbúa beint flug til Nice í Frakklandi þar sem leikur Íslands og Englands fer fram. Flogið út að morgni sunnudagsins 26. júní og heim aftur til Íslands um hádegi á þriðjudag. Gert er ráð fyrir að vélin taki tæplega tvö hundruð farþega og eru bókanir þegar farnar að berast í gegnum heimasíðu Heimsferða. 

Guðjón Arngrímsson, upplýsingafulltrúi Icelandair, sagði í samtali við mbl.is í gærkvöldi eftir að ljóst var að Íslands var komið í sextán liða úrslit EM í knattspyrnu karla að reynt yrði að bregðast við með einhverjum hætti til að koma sem flestum út sem hafa áhuga á leiknum.

Benti hann á að Icelandair sé þegar með þrjú til fjögur flug á dag til Parísar auk þess sem fé­lagið fljúgi til Brus­sel, Bar­sel­óna, Mílanó, Genf­ar og fleiri evr­ópskra borga. „Síðan mun­um við vænt­an­lega reyna að bæta við flug­ferðum eins og hægt verður. Það þarf ekki mik­inn sér­fræðing til þess að sjá það er mik­ill áhugi á þess­um leik og við mun­um að sjálf­sögðu gera allt sem við get­um til þess að bregðast við því,“ sagði Guðjón.

Guðjón sagði í samtali við mbl.is að ekki lægi fyrir hvort og þá hversu mörgum ferðum yrði bætt við.

WOW reynir að bæta við ferð

Bein flug­ferð WOW air til Nice í Frakklandi á sunnu­dag­inn seld­ist upp í gær­kvöldi en á mánu­dags­kvöldið kepp­ir ís­lenska landsliðið þar við hið enska í 16-liða úr­slit­um Evr­ópu­meist­ara­móts­ins í knatt­spyrnu. Upp­lýs­inga­full­trúi WOW air seg­ir aug­ljós­lega mik­inn áhuga á því að kom­ast út á leik­inn.

„Það er upp­selt til Nice á sunnu­dag­inn en við erum með ferð til Lyon á laug­ar­dag­inn,“ seg­ir Svan­hvít Friðriks­dótt­ir, upp­lýs­inga­full­trúi WOW air, í sam­tali við mbl.is. „Síðan erum við að vinna í því að bæta við vél til Nice, lík­lega á mánu­deg­in­um.“

Þar að auki flýg­ur WOW air til Par­ís­ar dag­lega.

Net­verj­ar vöktu at­hygli á því að flug­ferðin til Nice hafði hækkað mikið í verði í gær­kvöldi og var kom­in upp í 99.999. Til sam­an­b­urðar kost­ar ferðin til Nice í dag, fimmtu­dag, 27.999 krón­ur. Spurð um verðið seg­ir Svan­hvít það eðli­legt að miðaverðið hækki þegar aðsókn­in er svona mik­il.

Á vef Túrista er fjallað um nokkrar mismunandi leiðir til að komast til Nice í Frakklandi.

Frétt mbl.is: Sala á leikinn hefst kl. 12

Eftir sigurleikinn í gær.
Eftir sigurleikinn í gær. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert