Evrópa er að brotna í sundur

Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Pírata.
Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Pírata. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Þetta er mikið áhyggjuefni og það er alveg sama hvað fólki finnst um Evrópusambandið. Ég hef sjálf ekki legið á gagnrýni minni á því hversu mikil völd eru komin inn í embættismannakerfið í Brussel og þessi niðurstaða ætti að sjálfsögðu að leiða til breytinga þar á bæ,“ segir Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Pírata, aðspurð um niðurstöðu kosninga í Bretlandi um úrsögn þjóðarinnar úr Evrópusambandinu. 

Hún segist þó skynja að fólk sé óttaslegið í kjölfar niðurstöðunnar. „Það eru miklir óvissutímar fram undan og það er bara þannig að Evrópa er að brotna í sundur. Ég held að það sé ekki gott á þessum tímum, þeir sem kalla eftir því að brjóta hana enn frekar eru öfgamenn, bæði í Hollandi og Frakklandi. Síðan er núna orðið ljóst að Norður-Írar og Skotar vilja kjósa um úrsögn úr Bretlandi því þeir vilja vera áfram í Evrópusambandinu.“

Verða erfiðir tímar fyrir alla

Spurð hvort niðurstaðan hafi komið sér á óvart sagði hún að hún hafi haft á tilfinningunni að þetta gæti gerst. „Maður óttast uppgang öfga í Evrópu á tímum þar sem fólk á að geta staðið saman,“ segir Birgitta og nefnir morðið á þingkonunni Jo Cox í því samhengi. „Það er mjög sárt fyrir fólk í Bretlandi, sama á hvaða veginn það kaus, að nú sé búið að setja fleyg á milli þjóðarinnar á þennan hátt.“

Hún bætir við að nú sé mikilvægt að fara ekki í einhver viðbrögð sem ýta enn meira undir óttann. „Þú getur ímyndað þér hversu margir Bretar búa t.d. á Spáni sem vita ekkert hvað verður um þá. Þetta verða erfiðir tíma fyrir alla,“ segir Birgitta og nefnir hrun pundsins og markaðanna í því samhengi.

Birgitta segist ekki tilbúin að segja til um hvort úrsögnin komi sér vel eða illa fyrir Ísland. Hún bendir þó á að hér komi fjölmargir breskir ferðamenn á hverju ári og þurfi að skoða hvaða áhrif það hafi á þá. Hún telur úrsögnina neikvæða í stóra samhenginu. „Miðað við hvað Evrópa er mikil púðurtunna þá vill enginn aftur það ástand sem var fyrir tíma Evrópusambandsins,“ segir Birgitta og bætir við að það sé sorglegt að eitthvað sem var í grunninn dregið saman út af óskinni um frið hafi verið „yfirtekið af embættismönnum sem hafa sölsað til sín völd.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert