Skoða að setja upp stærra EM-torg

Ingólfstorg á miðvikudaginn.
Ingólfstorg á miðvikudaginn. mbl.is/Árni Sæberg

Hugsanlegt er að settur verði upp risaskjár utan Ingólfstorgs fyrir leik Íslands og Englands sem fram fer á mánudaginn.

Einungis 3.000 Íslendingar kræktu í miða á leikinn í Nice, en 8.000-10.000 Íslendingar hafa verið á leikjum íslenska liðsins í Frakklandi til þessa. Það má því búast við að fleiri vilji horfa á leikinn ásamt löndum sínum á risaskjá í Reykjavík.

Að sögn Ragnars Más Vilhjálmssonar hjá Manhattan Marketing, sem sér um framkvæmd og skipulagningu EM-torgsins, er ekki hægt að flytja EM-torgið á Ingólfstorgi annað, t.d. á Arnarhól, og þyrfti því að setja upp nýtt torg, sem sé hægara sagt en gert.

„Það þyrfti líka að flytja það til baka, út af því að Arnarhóll er alltof stór vettvangur fyrir hina leikina, þótt hann sé flottur fyrir Íslandsleikinn. En þetta er í skoðun og við munum gera það sem best er hægt að gera í stöðunni.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert