Sprengjuhótun í Nice

Frá flugvellinum í Nice.
Frá flugvellinum í Nice. Ljósmynd/ Wikipedia Commons

Flugvellinum í Nice var lokað tímabundið í dag vegna sprengjuhótunar. Gera má ráð fyrir að fjöldi Íslendinga muni fara um völlinn á næstu dögum vegna leiks Íslands gegn Englandi í Evrópukeppni karla í knattspyrnu. Einn þeirra er Þórir Gunnarsson sem lenti eftir flug frá París í dag, en var ekki hleypt út af flugvellinum.

„Það standa hermenn fyrir öllum hurðunum hérna,“ segir hann þegar mbl.is nær af honum tali. „Þeir eru alveg fullvopnaðir og við fengum þær upplýsingar frá flugvallarstarfsmanni að það hefði verið gerð sprengjuhótun. Það er búið að girða allt af hérna og við komumst ekki út.“

Þórir Gunnarsson.
Þórir Gunnarsson. Ljósmynd/ Facebook

Þórir segir lítið hafa verið hægt að gera í stöðunni og því hafi hann sest ásamt samferðamönnum á flugvallarbar og fengið sér bjór.

„Svo heyrðum við þvílíka sprengingu áðan, en ég hugsa að það hafi verið lögreglan að sprengja eitthvað því mér sýnist að það sé búið að opna aftur. Fólk er byrjað að fara út af flugvellinum.“

Svipuð uppákoma átti sér stað um klukkan 10 í morgun. Þá var ein bygging flugvallarins rýmd og hundruð farþega látin bíða úti í kjölfar þess að grunsamleg taska fannst. Taskan var síðan sprengd upp af lögreglu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert