Taktíkin hjá Guðna ekki gengið upp

Guðni Th. Jóhannesson leiðir kosninguna en hefur þó tapað fylgi.
Guðni Th. Jóhannesson leiðir kosninguna en hefur þó tapað fylgi. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Taktíkin hjá Guðna síðustu vikuna hefur kannski ekki gengið upp,“ segir Grétar Þór Eyþórsson, prófessor í stjórnmálafræði, um fyrstu tölur kvöldsins. Guðni Th. Jóhannesson leiðir kosninguna en fylgið er þó minna en kannanir gáfu til kynna.

Guðni mælist með 38,4% fylgi á landsvísu þegar rúmlega 47 þúsund atkvæði hafa verið talin. Halla Tómasdóttir fylgir með 30,9%. „Það er eins og það hafi orðið einhver tilfærsla á milli Guðna og Höllu á síðustu dögum,“ segir Grétar. „Það stendur upp úr að Halla hefur náð mikilli siglingu í lokin.“

Þrátt fyrir að Guðni sé með nokkuð afgerandi forystu hefur fylgi hans dregist töluvert saman undanfarið. Hann mældist með 44,6% fylgi í síðustu könnun Gallup sem birt var í gær og þar áður mældist hann með 51% fylgi. Halla mældist hins vegar með 18,6% í gær og 12,5% þar áður.

Frambjóðendur hjá Ríkisútvarpinu í kvöld.
Frambjóðendur hjá Ríkisútvarpinu í kvöld. mbl.is/Árni Sæberg

Auglýsingar hefðu kannski skilað fleiri atkvæðum

Spurður um skýringar á þessari þróun bendir Grétar á að Guðni hafi nánast ekkert auglýst á síðustu dögum, ólíkt Höllu, Andra Snæ og Davíð. „Hann var ekkert sérstaklega sýnilegur. Hann lagði greinilega mikla áherslu á að fara víða um landið en Halla hélt sínu striki og auglýsti og auglýsti, reyndar eins og Andri og Davíð, en það gerði Guðni ekki,“ segir Grétar. „Kannski hefði það gefið honum meira ef hann hefði lagt eitthvað meira í það en þetta eru auðvitað bara getgátur,“ segir hann.

Hefur fyrst og fremst verið í vörn

Grétar segir það ekki heldur hafa bætt úr skák að Guðni hafi verið í vörn alla kosningabaráttuna. „Hann er fyrst og fremst búinn að vera í vörn og hefur þurft að svara fyrir hitt og þetta og hrista ásakanir af sér. Á meðan hafa hinir, líkt og Halla og Andri, verið með frítt spil til að kynna sig,“ segir hann. „Það er alltaf erfiðara að vera í þeirri stöðu og það hefur kannski eitthvað að segja.“

Grétar Þór Eyþórsson, prófessor í stjórnmálafræði.
Grétar Þór Eyþórsson, prófessor í stjórnmálafræði. mbl.is

Útlit fyrir að Guðni taki þetta

Þrátt fyrir að nóttin sé ekki úti telur Grétar niðurstöðuna nokkuð ljósa. „Það þarf að vera eitthvað stórkostlega skakkt í því hvernig er talið í kjördæmunum til að þetta fari að snúast eitthvað verulega við,“ segir hann.

„Þetta eru að minnsta kosti mjög sterkar vísbendingar þar sem það munar hátt í tíu prósentustigum á Guðna og Höllu. Ég held að það sé ekki útlit fyrir annað en að Guðni taki þetta,“ segir Grétar og bætir við að tölurnar minni á árið 1996 þegar Ólafur Ragnar var kjörinn forseti með 41% atkvæða og næsti maður, Pétur Hafstein, var með 29%.

Þá segir Grétar einnig ánægjulegt að sjá góða kjörsókn. „Maður var orðinn svolítið áhyggjufullur um að þetta væri allt á niðurleið miðað við reynsluna af síðustu kosningum en þetta er mjög ánægjulegt,“ segir hann. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert