Gylfi og Hannes verða hetjurnar

Sölvi Jónsson, Jón Georg Aðalsteinsson og Hilma Sveinsdóttir eru á …
Sölvi Jónsson, Jón Georg Aðalsteinsson og Hilma Sveinsdóttir eru á Arnarhóli í kvöld. mbl.is/Þórður

„Ég er mjög bjartsýnn, held það fari 3-1 fyrir Íslandi. Birkir Bjarnason verður hetjan,“ segir Sölvi Jónsson sem var á Arnarhóli ásamt þeim Jóni Georg Aðalsteinssyni og Hilmu Sveinsdóttur fyrir leik Íslands gegn Englandi í kvöld. 

Þau fjölskyldan fóru út á leik Íslands í París og sáu svo leik Íslands við Ungverjaland niðri í miðbæ Reykjavíkur að sögn Jóns Georgs og áttu þau raunar miða  á leikinn í kvöld en komust ekki út. Þau voru að vonum ánægð með stemmninguna á Arnarhóli í kvöld. „Hún er ótrúleg!“ segir Hilma.

Spáir framlengingu og vító

„Ég fór á fyrstu tvo leikina úti og svo hef ég horft á þetta heima,“ segir Gunnar Kristinn Óskarsson sem var ásamt félaga sínum Bergþóri Snæ Jónassyni á Arnarhóli í kvöld. „Það gæti alveg orðið jafngóð stemmning hér og var úti, það eru það margir hérna. En það var líka alveg einstakt úti,“ bætir Bergþór við.

Spurðir hvernig leikurinn fari segir Bergþór: „2-1 fyrir Íslandi.“ Gunnar spáir framlengingu og svo vító þar sem Ísland dregur lengsta stráið. Hetjur Íslands í leiknum verða að þeirra sögn Gylfi Þór og Hannes markmaður.

Gunnar Kristinn Óskarsson og Bergþór Snær Jónasson.
Gunnar Kristinn Óskarsson og Bergþór Snær Jónasson. mbl.is/Þórður

Þau Katrín Vala Einarsdóttir, Rögnvaldur Guðmundsson, Ásrún Rögnvaldsdóttir og Helga Björg Stefánsdóttir voru stödd á leikjum Íslands í Marseilles og París en eru nú komin á Austurvöll til að fylgjast með sínum mönnum. „Maður veit aldrei hvernig fer. Ég spái vító,“ segir Ásrún.  

Bæði Ásrún og Katrín Vala voru sammála um að Hannes væri í uppáhaldi í íslenska liðinu og að hann komi til með að bjarga liðinu í kvöld. 

Rögnvaldur segist viss um að Gylfi Sigurðsson komi til með að skora úr aukaspyrnu í kvöld.

Katrín Vala Einarsdóttir, Rögnvaldur Guðmundsson, Ásrún Rögnvaldsdóttir og Helga Björg …
Katrín Vala Einarsdóttir, Rögnvaldur Guðmundsson, Ásrún Rögnvaldsdóttir og Helga Björg Stefánsdóttir á Arnarhóli í kvöld. mbl.is/Þórður
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert