Hælisleitandinn ekki undir lögaldri

Ali Nasi fluttur út úr Laugarneskirkju í nótt.
Ali Nasi fluttur út úr Laugarneskirkju í nótt. Ljósmynd/Ekki fleiri brottvísanir

Íraski hælisleitandinn Ali Nasi er ekki sextán ára, líkt og haldið hefur verið fram í fréttum Stundarinnar og Ríkisútvarpsins í dag, heldur yfir lögaldri. Þegar fjallað var um málið hér á landi var því aldrei haldið fram að hann væri barn að aldri. Þetta staðfestir Útlendingastofnun í samtali við mbl.is.

Í gögnum málsins er afrit af vegabréfi sem staðfestir að hann er yfir lögaldri. Staðfesti hann sjálfur fæðingardaginn sem gefinn er upp í vegabréfinu í viðtali hjá Útlendingastofnun. Stofnunin staðfestir einnig þessar upplýsingar.

Mennirnir tveir komu til Íslands frá Noregi fyrr á þessu ári. Mál þeirra var ekki tekið til efnislegrar meðferðar hér á landi á grundvelli Dyflinnar-reglugerðarinnar. Voru þeir fluttir úr landi í morgun eftir að lögregla sótti þá í Laugarneskirkju í Reykjavík. Hópur fólks hafði safnast saman í kirkjunni í nótt en hún var opnuð í von um að mennirnir yrðu ekki fjarlægðir á grundvelli kirkjugriða.

Sr. Kristín Þórunn Tómasdóttir, sóknarprestur kirkjunnar, sagði í samtali við mbl.is í morgun að það væri áhyggjuefni að á reiki væri hversu gamall Ali væri.

„Hann hefur gefið upp ólíkan aldur hérna, bæði að hann sé nítján ára og sextán ára. Ef hann er sextán ára er hann bara barn og ákveðnar reglur gilda um það. En málið er að hann hefur ekkert í höndunum til að sýna fram á hvort sem er, það er staða sem margir pappírslausir eru í. Þú getur ekki sýnt fram á það sem þú segir. Það er áhyggjuefni ef um er að ræða ólögráða einstakling sem fær svona meðferð,“ sagði hún.

Frétt mbl.is: Dregnir út úr kirkjunni í nótt

Uppfært kl. 15.22

Útlendingastofnun hefur sent frá sér eftirfarandi tilkynningu: 

Í ljósi umfjöllunar um mál tveggja hælisleitenda sem fluttir voru til Noregs í morgun vill Útlendingastofnun koma eftirfarandi á framfæri.

Umsóknir mannanna voru afgreiddar á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar og ekki teknar til efnismeðferðar hér á landi. Norsk yfirvöld höfðu þegar móttekið umsóknir beggja manna um hæli. Því lá fyrir að Noregur bæri ábyrgð á meðferð umsókna þeirra og gengust þarlend yfirvöld við ábyrgð sinni. Ekkert í málunum benti til þess að málin myndu ekki fá réttláta og fullnægjandi málsmeðferð hjá norskum yfirvöldum.

Umsækjendurnir kærðu ákvörðun Útlendingastofnunar til kærunefndar útlendingamála sem staðfesti niðurstöðu stofnunarinnar. Úrskurðum kærunefndar var ekki skotið til dómstóla.

Annar mannanna sótti um hæli hinn 29. nóvember 2015 og var ákvörðun Útlendingastofnunar í málinu birt honum hinn 2. febrúar 2016. Hinn maðurinn sótti um hæli hinn 6. janúar sl. og var ákvörðun í málinu birt 16. febrúar. Var báðum málunum því lokið af hálfu Útlendingastofnunar innan 90 daga viðmiðunartíma í málsmeðferð hælismála. Úrskurðir kærunefndar útlendingamála voru birtir hinn 11. maí sl.

Í fjölmiðlum hefur því verið haldið fram að annar umsækjendanna sé 16 ára gamall og því barn að aldri. Þetta er ekki rétt. Mennirnir eru báðir eldri en átján ára. Þetta sýna fyrirliggjandi gögn í málinu auk framburðar mannanna fyrir stjórnvöldum þar sem þeir staðfestu aldur sinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert